Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum

Ferðamenn á göngu.
Ferðamenn á göngu.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum

Frumvarpið felur í sér að lögfest verði gerð heildstæðrar stefnumarkandi áætlunar til 12 ára vegna uppbyggingar innviða í náttúru Íslands. Er markmiðið að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um slíka uppbyggingu og viðhaldi ferðamannsvæða, ferðamannastaða og ferðamannaleiða á Íslandi með náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. Þannig er áætlunin mikilvægt tæki til að forgangsraða fjármunum ríkissjóðs sem hverju sinni skal varið til uppbyggingar á ferðamannastöðum.

Gert er ráð fyrir að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu á þriggja ára fresti. Samhliða landáætluninni verða unnar þriggja ára verkefnaáætlanir sem kveða nánar á um forgangsverkefni hverju sinni. 

Frumvarpið er sett fram til að takast á skipulegan hátt við vaxandi ferðamennsku og álag hennar á náttúruna. Þannig er landsáætluninni ætlað að vernda náttúruna, koma í veg fyrir náttúruspjöll og tryggja nauðsynlegar lagfæringar, draga úr raski af völdum nýtingar, dreifa álagi, tryggja öryggi ferðamanna og meta ný svæði auk þess að sjá til þess að uppbygging innviða falli vel að heildarsvipmóti lands.

Frumvarpið markar tímamót að því leyti að landsáætlunin verður sú fyrsta sinnar tegundar sem ætlað er að marka stefnu um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru til lengri tíma. Frumvarpið hefur verið unnið í samráði við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila. Meðal annars voru drög kynnt á fjölmennum fundi haghafa og þau auglýst til umsagnar á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta