Af vegabréfsáritunum og rauðum símum
Vegabréfsáritanir til Íslands eru gefnar út í sendiráði Íslands í Peking og hjá okkur í sendiráðinu í Moskvu en í öðrum löndum eru það sendiráð erlendra ríkja sem aðstoða okkur með þessa þjónustu. Vegna samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við önnur ríki þá sleppum við Íslendingar við að sækja um áritanir til fjölmargra landa, einkum þeirra sem við ferðumst oftast til. Margir af eldri kynslóðinni og þeir sem ferðast til landa utan Evrópu þekkja hins vegar margir hverjir það umstang sem fylgir því að þurfa sækja um vegbréfsáritun áður en lagt er af stað í ferðalag.
Við hér í sendiráðinu í Moskvu erum meðvituð um þá ábyrgð sem okkur er falin með því að hafa umsýslu með þessu verkefni fyrir hönd útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins. Það er mikilvægt að vanda vel til verka og veita góða þjónustu. Við eigum mjög gott samstarf við kollega okkar hjá útlendingastofnun vegna áritananna, svo gott raunar að það hefur hvarflað að mér að vegna hinna tíðu símtala, sé stór rauður sími merktur Moskvu á borði útlendingastofnunar, í anda beinu línurnar milli Hvíta hússins í Washington og Kreml í Moskvu á tímum kaldastríðsins.
Umsóknum um vegabréfsáritun til Íslands hér í Moskvu og í Pétursborg er skilað til miðstöðva sem taka á móti umsóknum fyrir mörg af þeim ríkjum sem eru í Schengen-samstarfinu. Umsóknirnar berast næsta virka dag og okkar verkefni er að leggja mat á hvort Ísland sé í raun áfangastaður viðkomandi og hvort tilgangur ferðar sé sá sem gefinn er upp.
Það er mikið ánægjuefni að sjá að ferðamönnum frá Rússlandi hefur fjölgað talsvert á síðustu árum í kjölfar markaðsstarfs íslenskra ferðaþjónustuaðila með aðkomu sendiráðsins og Íslandsstofu, úr 1.700 árið 2010 í 8.000 árið 2014. Sérstaklega þar sem rússneskir ferðamenn eru eftirsóttir ef svo má að orði komast; þeir kalla á fleiri störf og betri aðbúnað en ferðamenn almennt. Við í sendiráðinu gáfum út áritanir fyrir hluta þessa hóps sem ekki er þegar með langtímavegabréfsáritun. Alls gáfum við út 2.600 áritanir á síðasta ári sem skilar ríkissjóði milli 10 og 12 milljónum króna í tekjur.
Í gegnum þetta verkefni fáum við mörg áhugaverð og krefjandi mál inn á okkar borð, sem ekki er hægt að ræða í smáatriðum. Má þar meðal annars nefna ástarsögu úr neðanjarðarlestakerfi Moskvuborgar, rússneska kvikmyndagerðamenn að taka upp vísindaskáldsögu á Íslandi og ýmsa vafasama einstaklinga sem ekki fylgja settum reglum.
Þetta er mikill fjöldi áritana og við heyrum sjaldnast aftur í fólki eftir að gengið hefur verið frá málunum. Því var það mjög gaman að rekast á hóp Rússa á ferð um landið sl. sumar sem ég hafði gefið út áritun fyrir. Það var gott hljóð í hópnum, sem var mjög sáttur við þjónustu sendiráðsins og himinlifandi yfir dvöl sinni á Íslandi.
Hreinn Pálsson er sendiráðunautur í Moskvu.