Björn Zoëga ráðinn formaður verkefnastjórnar
Björn Zoëga læknir og fyrrverandi forstjóri Landspítala hefur verið ráðinn formaður verkefnastjórnar um betri heilbrigðisþjónustu. Verkefnastjórninni er ætlað að vinna á grundvelli yfirlýsingar forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands frá 8. janúar sl.
Verkefnisstjórn mun einnig taka við stjórn verkefnisins Betri heilbrigðisþjónusta 2013 – 2017 sem heilbrigðisráðherra setti af stað í upphafi síðasta árs. Undir það verkefni féllu sjö verkhlutar og eru fjórir þeirra komnir í framkvæmd en þremur er ekki lokið og munu verða hluti af ofangreindu verkefni. Í verkefnisstjórninni munu eiga sæti fimm manns.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist hafa miklar væntingar til hinnar nýju verkefnastjórnar.
„Það er mikill fengur að hafa fengið mann með reynslu og þekkingu Björns Zoëga til að leiða verkefnið. Ég vænti þess að með verkefnastjórninni færist aukinn kraftur í mörg þau mikilvægu verkefni sem unnið er að innan heilbrigðiskerfisins.”
Gert er ráð fyrir því að verkefnisstjórn ljúki vinnu í lok árs.