Ráðuneyti umhverfismála í aldarfjórðung
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fagnar 25 ára afmæli í dag en það var stofnað 23. febrúar árið 1990 undir nafni umhverfisráðuneytisins. Fyrir þann tíma höfðu málefni umhverfis og náttúru heyrt undir ólík ráðuneyti.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, er þrettándi ráðherrann til að gegna embættinu frá stofnun ráðuneytisins, en fyrsti umhverfisráðherrann var Júlíus Sólnes, sem kosinn var á Alþingi fyrir Borgaraflokkinn árið 1987.
Helstu verkefni hins nýja ráðuneytis voru náttúru- og umhverfisvernd, friðunar- og uppgræðsluaðgerðir, villt dýr og dýravernd, mengunarvarnir, úrgangsmál, skipulags- og byggingarmál, landnýtingaráætlanir og landmælingar, umhverfisrannsóknir, veðurathuganir og –spár, fræðslu- og upplýsingastarfsemi á sviði umhverfismála, samræming aðgerða og alþjóðasamskipti á sviði umhverfismála. Meðal stofnana sem fluttar voru undir ráðuneytið við stofnun þess voru Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Veðurstofa Íslands og Landmælingar Íslands og fljótlega bættust við stofnanir á borð við Skipulag ríkisins (síðar Skipulagsstofnun) og þjóðgarðar landsins að Þingvallaþjóðgarði undanskildum.
Málaflokkum ráðuneytisins og stofnunum þess fjölgaði svo smám saman. Haustið 2012 urðu þau tímamót að rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra urðu verkefni ráðuneytisins. Breyttist þá nafn þess í umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Í dag eru þeir málaflokkar sem ráðuneytið fer með hátt í 50 talsins og 14 stofnanir heyra undir ráðuneytið auk skógræktarverkefna.
Nánar um sögu ráðuneytisins.