Starfshópur um gjaldtöku í innanlandsflugi skilar tillögum til innanríkisráðherra
Starfshópur sem innanríkisráðherra skipaði á síðasta ári til að kanna opinbera gjaldtöku í innanlandsflugi og mögulegar leiðir til að lækka farmiðaverð hefur skilað ráðherra skýrslu sinni. Í niðurstöðum er bent á að niðurfelling farþega- og lendingargjalda svo og virðisaukaskatts á aðföngum í innanlandsflugi myndi skila að meðaltali 1.700 króna verðlækkun á fluglegg. Þá bendir hópurinn á þá leið að bjóða út flugleiðir og skilgreina leyfilegt hámarksverð. Ólöf Nordal innanríkisráðherra tók við skýrslunni í vikunni og sagði að efni hennar yrði gaumgæft í ráðuneytinu.
Í starfshópnum sátu: Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður sem var formaður hópsins, Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður, Valdimar O. Hermannsson, sem tilnefndur var af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Árni Gunnarsson, fulltrúi atvinnulífsins, og frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þau Viðar Helgason og Björney I. Björnsdóttir.
Markmið hópsins var að greina öll þjónustugjöld og opinber gjöld sem lögð eru á áætlunarflug innanlands og áhrif þeirra á verð farmiða. Gjöldin eru farþegagjald, lendingargjald, flugleiðsögugjald, gjald vegna losunar koltvíoxíðs, skattar og gjöld á flugvélaeldsneyti og virðisaukaskattur þar sem það á við. Einnig skyldi skoða fargjöld og afsláttarkjör flugfélaga.
Hópnum var ætlað að leggja fram tillögur sem geta nýst sem viðmið eða stefna varðandi skatta og gjöld í flugi og benda á leiðir til að lækka verð flugfarmiða og styrkja innanlandsflug meðal annars með möguleikum í ferðaþjónustu.