MEST UM KONUR
Nýlega höfum við hjónin tekið þátt í þremur afmælisveislum aldraðra vestur-íslenskra kvenna, 100, 95 og 90 ára. Þar komu saman margar kynslóðir Kanadamanna af íslenskum ættum. Elsta afmælisbarnið, Jónína Britten Jónasson, náfrænka Sigtryggs Jónassonar, "föður Nýja Íslands" sem aldraður bjó á heimili hennar, segir af honum sögur á íslensku. Þannig eru enn á lífi fulltrúar kynslóðar sem hafði saman að sælda við fyrstu kynslóð íslensku landnemanna í Kanada og brúa þannig bilið frá upphafinu til dagsins í dag. Þegar þannig er litið á málin er ekki svo langur tími frá upphafi íslenska landnámsins í Vesturheimi.
Á hinn bóginn eigum við hér í vestrinu dagleg samskipti við fulltrúa fjórðu og fimmtu og jafnvel sjöttu kynslóðar Vestur Íslendinga sem aldrei hafa lært íslensku en halda ótrúlega sterku sambandi við íslenska menningararfinn. Og undanfarin ár hafa raunar ungir Vestur Íslendingar lagt leið sína til Íslands innan Snorra-verkefnisins og komið til baka fullir af áhuga á íslenskunni og menningararfleiðinni. Það var t.d. mjög ánægjulegt að sjá á þingi Þjóðræknisfélagsins í Norður Ameríku (INL NA) hér í Winnipeg í fyrra, að ungir Vestur Íslendingar eru að veljast til forystu þar.
Níutíu og fimm ára afmælisbarnið, Jóhanna Wilson, rifjar upp atburði heimskreppunnar miklu og hörmulegar afleiðingar hennar hér á sléttunum miklu. Hún hefur verið kennari kynslóða og alla tíð lagt ofuráherslu á menntun kvenna. Hún var lengi í forystu í Jón Sigurðsson IODE (Imperial Order of the Daughters of the Empire) sem m.a. hefur safnað saman upplýsingum og myndum í stórmerk minningarrit um vestur íslenska hermenn í fyrri og seinni heimstyrjöldinni, Kóreustríðinu og Víetnamstríðinu (Veterans of Icelandic Descent). Margir hafa bent á merkilega hátt hlutfall Vestur Íslendinga, fyrst og fremst karla, í Manitoba sem gengu í herinn í fyrri heimstyrjöldinni. Konurnar tóku á sig störf þeirra heima á meðan. Á milli 1050 - 1100 Manitóbabúar af íslenskum ættum, næstum allt karlar, gengu í kanadíska herinn. Það er hátt hlutfall af þeim 14 þúsund sem þá töldust af íslenskum ættum í Manitoba, skrifaði t.d. dr. George Johnson, þá landsstjóri Manitoba, í formála Minningarritsins um íslenska hermenn. Dóttir hans er Janis Johnson, þekktur öldungadeildarþingmaður á Kanadaþingi, hæst kvenna á meðfylgjandi mynd.
Yngsta afmælisbarnið, Gunnþóra Gísladóttir, starfaði sem hjúkrunarfræðingur í áratugi í Winnipeg eftir nám í Bretlandi. Fyrirmynd kynslóða. Hún er nú flutt til Gimli og er enn á fullu við að baka Vínartertur o.m.fl. fyrir vestur íslenska samfélagið.
Stína litla 105 ára. Káinn. Baggalútur
Rétt sunnan landamæranna við Bandaríkin, "línu" eins og Vestur Íslendingar kalla þau er Mountain (Fjallabyggð) og Pembínahérað í Norður Dakóta. Þar býr enn Kristín Hall, "Stína litla" sem er nú 105 ára. Káinn (Kristján Níels Jónsson, f. 1860) sem þar bjó orti svo til hennar:
Harmaboðar heitir slá
hjartað þjáða og lúna;
liggur voða illa á
okkur báðum núna.
Síðan fyrst ég sá þig hér,
sólskin þarf ég minna
gegnum lífið lýsir mér
ljósið augna þinna.
Fyrir fáum árum fór hljómsveitin Baggalútur um þetta svæði og heillaðist. Varð þá til hið frábæra verk "Sólskinið í Dakóta" diskur með tónlist þeirra við ljóð Káins, þ.á m. um Stínu litlu. Káinn sem dó 1936 bláfátækur, en hafði 18 ára tekið með sér góð fararefni frá Íslandi, eins og Reykjavíkurskáldið okkar, Tómas Guðmundsson, ritaði í formála Vísnabókar Káins: " ..... þau hin sömu og bezt höfðu dugað þjóð hans um aldir, en það eru góðar gáfur, rík bókhneigð og ræktarfull ást á átthögunum og feðratungu." Í samtali við Kristínu Hall fyrir fjórum árum skynjuðum við hjónin hversu merkilega stuttur tími rúmlega 150 ár geta verið í svona samhengi. Þetta samhengi kynslóðanna og tímans skynja Kínverjar betur en flestir.
Ömmur í Vesturheimi. Fjallkonur
Það hefur vakið athygli okkar hér í Kanada, bæði á Ottawa- og Winnipegárunum, hversu mikið er almennt talað um ömmur í vestur íslenska samfélaginu. Allir virðast hafa sögur um ömmurnar sínar á takteinum. Mjög mörg samtöl byrja á "my amma". "Amma mín sem gerði svo margt undravert og eftirminnilegt og var svo góð, sterk og dugleg og kenndi okkur svo margt". Mikil aðdáun á ömmu er gegnum gangandi hjá vestur íslenskum viðmælendum. Þær áttu gjarnan mörg börn og þær héldu fjölskyldunum saman með elju sinni og krafti. Það er einhvern veginn svo, að mun meira er rætt um ömmurnar hérna í vestur íslenska samfélaginu en afana, þótt að sjálfsögðu séu á því undantekningar. Þetta er athyglisvert og leiðir huga að allskonar kenningum um hina sterku íslensku konu, en líka að almennt mikilli og erfiðri vinnu karlanna utan heimilis. Þeir höfðu því oftast ekki tíma til að sinna börnum.
Myndatexti: Með Kristínu Hall (Stínu litlu) og Sir Magnúsi Ólafssyni í Mountain, ND.
Kannski er ein áberandi birtingarmynd aðdáunarinnar á ömmu í vestur íslensku menningunni, að Fjallkonur eru valdar á grundvelli þess sem þær hafa þegar afrekað og gert fyrir samfélagið. Það þýðir að þegar þær eru kjörnar til þessa mikla viðurkenningar- og virðingarhlutverks, sem tekið er mjög alvarlega og stendur í heilt ár, eru þær a.m.k. á miðjum aldri. Þær hafa sannað sig í áratugi.
Janúar 2016 - 100 ár frá kosningarétti kvenna í Manitoba
Hinn 27. janúar 2016 minnast Kanadamenn, en þó alveg sérstaklega íbúar Manitoba, þess að þann dag fyrir hundrað árum fengu konur í Manitoba kosningarétt til fylkisþingsins og rétt til að bjóða sig fram í fylkiskosningum. Þarna urðu tímamót og var Manitoba fyrsta kanadíska fylkið til þess að veita konum kosningarétt. Önnur fylki fylgdu svo í kjölfarið og loks var samþykkt á alríkisþinginu í höfuðborginni Ottawa árið 1920, að 21 árs konur og eldri hefðu atkvæðisrétt til kosninga til Kanadaþings. Mikið hefur verið ritað um þýðingarmikið forystuhlutverk Margrétar Jónsdóttur Benedictsson (1866-1956) í þessu sambandi. Það er óumdeilt að hún hafði afgerandi áhrif með skrifum sínum, fyrirlestrum og skipulagshæfileikum á þróun þessara mála í Manitoba og sterk rök benda til áhrifa hennar um allt hið víðfema Kanada, þótt aðrar konur hafi þar orðið frægari, t.d. Nellie McClung. Í ýmsum skrifum um Margréti og íslenskar kynsystur hennar í Manitoba er fjallað um langa íslenska hefð fyrir mannréttindum kvenna og að þessvegna hafi konur af íslenskum ættum, eins og leiðtogi þeirra, Margrét, byggt á sterkum undirstöðum frá gamla landinu. Hvað sem um það má segja, er víst að vestur íslensku konurnar í Manitoba voru í fylkingarbrjósti í baráttunni. Þegar Manitoba varð kanadískt fylki 1870 var tekið fram í kosningalögum að konur, vitleysingar (idiots), brjálæðingar (lunatics) og glæpamenn mættu ekki kjósa !! Svo það var ekkert nema upp á við úr þeim dimma dal tíðarandans og Margrét og aðrar konur hófust handa. Þegar 1881 var Íslenska kvenfélagið stofnað til að styrkja ungar íslenskar konur til að fá góð störf, þjálfun og menntun. Svo var íslenska kvenréttindafélagið stofnað 1908 og Margrét varð fyrsti formaður, en hún hafði þegar 1893 byrjað að flytja fyrirlestra um mannréttindi kvenna. Hún gaf út og ritstýrði ásamt manni sínum, Sigfúsi B. Benedictssyni, stórmerkilegt og áhrifaríkt tímarit, Freyju, 1898 - 1910. Meðal efnis um hana er doktorsritgerðin "Three Women Pioneers in Manitoba: Evidence of Servant - Leadership (University of ND, Grand Forks, 2004) eftir Carolyn L Crippen.
Sögur úr Vesturheimi. Afrek hjóna
Veturinn 1972 - 1973 ferðuðust hjónin Olga María Franzdóttir og Hallfreður Örn Eiríksson um Manitóba, Bresku Kolumbíu og Norður Dakóta. Þau hljóðrituðu frásögur Vestur Íslendinga og hefur hluti þess mikla efnis sem þau söfnuðu verið gefið út á bók, Sögur úr Vesturheimi (Stofnun Árna Magnússonar, 2012, Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna). Þetta er mikið rit og alveg bráðskemmtilegt. Gaman að sjá á prenti svokallaða vesturíslensku. Er óhætt að mæla með bókinni.
Tíu leikrit eftir Guttorm J. Guttormsson. Karlar og konur
Fyrst hér er nefnd bók má geta nýútkominnar merkrar bókar, Ten Plays - Tíu leikrit eftir Guttorm J. Guttormsson í þýðingu Elínar Thordarson og Christopher Crocker sem bæði eru með M.A. próf frá íslenskudeild Manitobaháskóla. Þessi leikrit hafa ekki birst á ensku áður. Leikritin eru einnig prentuð á íslensku í bókinni. Ritstjórar eru dr. Birna Bjarnadóttir, forstöðukona íslenskudeildar Manitobaháskóla og dr. Gauti Kristmannsson, prófessor við H.Í. Íslenskudeildin við Manitobaháskóla er merkileg og einstök í heiminum og hefur dr. Birna unnið þar þrekvirki undanfarin ár, einnig í útgáfumálum (KIND PUBLISHING deildarinnar). Leikrit Guttorms voru fyrst prentuð í Reykjavík 1930. Guttormur er þekktur sem helsta skáld Nýja Íslands þar sem hann bjó allt sitt líf (1878 - 1966) að Víðivöllum við Riverton. Þangað er ekið frá Winnipeg á tæpum tveimur tímum. Í Inngangi að bókinni segir Vigdís Finnbogadóttir m.a: " Á því leikur enginn vafi að Guttormur var afar frumlegt leikritaskáld. - Þessi útgáfa hefur það að markmiði að heiðra frumlegan og skapandi höfund. Lesendum hans getur ekki annað en þótt innilega vænt um þennan íslensk - kanadíska bónda og skáld." Elin Thordarson ritar eftirmála. Heather Alda Ireland, kjörræðismaður Íslands í Vancouver, og dótturdóttir Guttorms skrifar um afa sinn í formálsorðum. Þeir sem komið hafa til Vancouver vita hvern hauk í horni við eigum í henni þar. Heather Alda hefur áður (1993) gefið út bókina Áróra/Aurora með ljóðum Guttorms á íslensku og í enskum þýðingum. Einkar skemmtileg ljóðabók. Frægasta kvæði Guttorms er "Sandy Bar" sem Haraldur heitinn Bessason skrifað svo um: "......er sígilt ljóð um fallvaltleik lífsins og spurninguna um tilgang þess eða tilgangsleysi." Haraldur skrifaði einnig: " ..... samdi hann öll verk sín á íslensku og vann sér öruggan sess í íslenskri bókmenntasögu. Er hann eini höfundurinn fæddur og uppalinn utan Íslands sem það afrek hefur unnið." Guttormur, eða Gutti eins og hann var oft kallaður, samdi margskonar ljóð, ádeilu-, heimspeki-, þjóðernis-, landnema- og náttúruunnandaljóð. Ennfremur var hann fægur fyrir kímniskáldskap sinn og er "Winnipeg Icelander" frægasta kímnikvæði hans. Þar gerir hann grín að enskublandaðri íslensku Winnipegbúa. Til er upptaka af flutningi skáldsins, bæði á Sandy Bar og Winnipeg Icelander
Hjálmar W. Hannesson er aðalræðismaður Íslands í Winnipeg