Hoppa yfir valmynd
10. mars 2015 Utanríkisráðuneytið

Samráðsfundur Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál

Samráðsfundur ríkjanna tveggja er haldinn með reglulegu millibili

Reglulegur samráðsfundur íslenskra og bandarískra stjórnvalda um öryggis- og varnarmál fór fram í Washington 6. mars síðastliðinn. Viðræðurnar fara fram á grundvelli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og sameiginlegrar yfirlýsingar ríkjanna um varnarsamstarfið frá 2006. 

Af hálfu Íslands tóku fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu, ásamt undirstofnunum þess, þátt í fundinum en Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, leiddi íslensku sendinefndina. Af hálfu bandarískra stjórnvalda sóttu fundinn fulltrúar utanríkisráðuneytisins, varnarmálaráðuneytisins og yfirherstjórnar Bandaríkjanna í Evrópu. Jim Townsend og John A. Heffern, vararáðherrar úr varnarmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu, leiddu samráðið af hálfu Bandaríkjanna.

Fjallað var um samstarf ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, varnarviðbúnað á Íslandi, rekstur varnarmannvirkja, þátttöku aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í reglulegri loftrýmisgæslu á Íslandi og um samstarf og þátttöku í varnartengdum æfingum. Vinna við mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og stefnu um almannavarnir- og öryggismál var kynnt. Þá var rætt um öryggishorfur í Evrópu og framkvæmd þeirra ákvarðana sem teknar voru á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Wales í september síðastliðnum.

Þá áttu ráðuneytisstjóri og Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Evrópumála, fund þar sem tengsl Íslands og Bandaríkjanna voru til umfjöllunar. Rætt var m.a. um varnarsamstarfið, þróunina í alþjóðlegum öryggismálum og samstarf á norðurslóðum, en Bandaríkin taka við formennsku í Norðurskautsráðinu í apríl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta