Hoppa yfir valmynd
11. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jafnrétti er grundvöllur hagsældar og velferðar

Félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpar afmælisfund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York
Félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpar afmælisfund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti í gær ræðu Íslands í almennum umræðum á 59. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women). Fundur kvennanefndarinnar er í ár tileinkaður tuttugu ára afmæli framkvæmdaáætlunarinnar frá Peking sem leggur grunn að starfi aðildaríkjanna á sviði jafnréttismála.

Ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru einnig til umræðu á fundinum.  Markmiðin verða samþykkt á fundi leiðtoga aðildaríkja Sameinuðu þjóðanna í haust og munu leysa þúsaldarmarkmiðin frá árinu 2000 af hólmi. Norðurlöndin hafa lagt áherslu á að öll aðildarríki viðurkenni rétt kvenna til lífs án mismununar og ofbeldis. Því verði markmiðin að tryggja kynheilbrigði kvenna, þar á meðal aðgang að frjálsum fóstureyðingum og bann við limlestingum á kynfærum barna og kvenna.

Í ræðu sinni sagði Eygló:

„Í dag eru konur enn meirihluti þeirra sem lifa við skort á efnislegum gæðum og takmarkað aðgengi að áhrifastöðum á sviði stjórn- og efnahagsmála. Kynjajafnrétti er grundvöllur hagsældar og velferðar og við höfum einfaldlega ekki efni á að bíða eftir viðunandi árangri í málaflokknum.“

Eygló lagði einnig áherslu á að án valdeflingar og þátttöku kvenna á opinberum vettvangi væri ekki hægt að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um frið, fæðuöryggi, lýðræðislega stofnanauppbyggingu og jafnt aðgengi kvenna og karla að menntun, svo að einhver dæmi séu nefnd. Benti hún á nauðsyn þess að auka þátttöku karla á sviði jafnréttismála sem og ábyrgð þeirra á að útrýma kynbundnu ofbeldi gegn konum.  

Í dag funda ráðherrar jafnréttismála á Norðurlöndunum með Phumzile Mlambo-Nqcuka, framkvæmdastjóra UN Women, og standa fyrir  opnum pallborðsumræðum undir yfirskriftinni; „Konur og menn – sameiginlegt verkefni um jafnrétti“. Í nýsamþykktri samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál fyrir tímabilið 2015–2018 er meðal annars lögð áhersla á karla og jafnrétti og aðgerðir til að auka þátttöku þeirra í öllu jafnréttisstarfi. Áður hafi stefnumótun á sviði norrænna jafnréttismála lagt megináherslu á samfélagslega stöðu kvenna á vinnumarkaði og aukið aðgengi þeirra að pólitískum og efnahagslegum áhrifum. Norræna ráðherranefndin vill með nýrri samstarfsáætlun huga meira að stöðu karla til að auka lífsgæði allra í samfélaginu.

Hringborðsumræður ráðherra um konur og völd
Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra tók þátt í hringborðumræðum ráðherra um konur og völd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta