Vegna umræðu um kostnað við ferðir og farmiðakaup
Kostnaður ríkissjóðs af ferðum á vegum ríkisins til útlanda hefur verið til umræðu undanfarið. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur af því tilefni tekið saman nokkrar staðreyndir sem snerta þau mál.
Íslensk stjórnvöld eiga í margháttuðum erlendum samskiptum og því stendur ríkið straum af kostnaði við ferðir til og frá landinu. Ríkissjóður greiðir að auki ferðakostnað annarra í öðrum tilvikum, t.a.m. þegar íslenskir borgarar þurfa að leita læknisaðstoðar erlendis.
Árið 2013 nam kostnaður ríkissjóðs vegna allra ferða erlendis um 900 milljónum króna. Inni í þeirri upphæð er kostnaður við flug til og frá landinu, tengiflug erlendis, auk allra ferða með lestum, rútum, skipum og ferjum.
Ferðakostnaður er bókfærður á þann sem ferðast hverju sinni á vegum ríkisins, ekki á þau félög sem ferðast er með. Því er ekki greinanlegt í bókhaldi Fjársýslu ríkisins hver viðskipti við einstök félög eru árlega. Samkvæmt upplýsingum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið fékk frá Icelandair námu viðskipti stofnana ríkisins við félagið um 300 milljónum króna árið 2013.
Viðmið og siðareglur
Þegar ferðir á vegum ríkisins eru bókaðar ber ávallt að huga að hagkvæmni og virða viðmið um góða starfshætti fyrir starfsmenn sem annast opinber innkaup en fjármála- og efnahagsráðherra gefur þau út. Í þeim viðmiðum segir m.a. að starfsmenn sem annist innkaup megi hvorki semja um né taka á móti gjöf, greiða eða annarri fyrirgreiðslu fyrir sjálfa sig, fjölskyldu, vini eða aðra sem þeim tengjast.
Í siðareglum starfsmanna ríkisins segir m.a. að ríkisstarfsmönnum beri að vinna gegn sóun og ómarkvissri meðferð fjármuna og einnig að forðast hagsmunaárekstra.
Litið til heildarkostnaðar
Við bókun ferða á vegum ríkisins ber að líta til heildarkostnaðar . Meginþættir sem hafðir eru í huga eru verð flugferða, gisting og uppihald á ferðalögum, lengd ferðar og tímasetning tengiflugs. Af þessu leiðir að oftast er keyptur miði á almennu farrými, eða í um 90% tilvika. Hjá mörgum ráðuneytum og stærri stofnunum hafa starfsmenn ekki aðgang að vali á ferðatilhögun þegar sóttir eru fundir erlendis, þar sem sérhæfðir starfsmenn hafa með höndum að finna hagkvæmasta ferðamáta vegna ferðalaga.
Ríkið hefur í gegnum tíðina gert samninga við flugfélög um afsláttarkjör, bæði hérlend og erlend. Í gildi er samningur við Icelandair. Þá hafa einstök ráðuneyti gert samning um afsláttarkjör við flugfélagið Wow. Útboð á farmiðum fór síðast fram árið 2011. Flugfélagið Iceland Express kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála og beindi kvörtun vegna þess til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að gallar hefðu verið á framkvæmd útboðsins. Iceland Express hélt því fram gagnvart ESA að í viðskiptum ríkisins við Icelandair væri falin ólögmæt ríkisaðstoð. Kvörtunin var til meðferðar hjá ESA í tæp tvö ár. Í niðurstöðu ESA frá því í júlí 2014 segir stofnunin að engin ríkisaðstoð sé falin í viðskiptum ríkisins við Icelandair.
Athugun ESA laut meðal annars að útboðsferlinu. Því þótti ekki rétt að hefja útboðsferli að nýju meðan kvörtun Iceland Express var þar til meðferðar. Undirbúningur nýs útboðs hefur staðið yfir hjá Ríkiskaupum. Er þess vænst að nýtt útboð fari fram á fyrri hluta þessa árs.
Fríðindi ekki í boði
Í útboði vegna farmiðakaupa árið 2011 kom skýrt fram í fylgigögnum að einstaklingi ætti ekki að vera mögulegt að afla sér fríðinda fyrir ferðir sem farnar eru á vegum ríkisins. Ríkið hefur áður haldið fram slíkum kröfum. Icelandair hefur verið öndverðrar skoðunar og sagt að ferðapunktar breyti engu um viðskiptakjör greiðandans, ríkisins, og séu því greiðandanum í raun óviðkomandi.
Í því útboði sem nú er unnið að vegna innkaupa á flugsætum fyrir starfsmenn ríkisins til og frá landinu, er eins og áður haft að leiðarljósi að einkahagsmunir þess starfsmanns sem ferðast hverju sinni ráði ekki vali á flugfélagi.