Ný reglugerð um brennisteinsinnihald í fljótandi eldsneyti
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti.
Við brennslu á fljótandi jarðefnaeldsneyti berst brennisteinsdíoxíð út í andrúmsloftið og veldur mengun. Þar vegur notkun skipa þungt og hafa gilt ákveðnar reglur í mörg ár um leyfilegan hámarksstyrk brennisteins í fljótandi eldsneyti. Nú hafa þessar reglur verið endurskoðaðar og í nýju reglugerðinni er tilgreindur leyfilegur hámarksstyrkur brennisteins í skipaeldsneyti, skipadísilolíu, skipagasolíu, svartolíu í brennslustöðvum og gasolíu.
Þá eru í reglugerðinni ákvæði um skyldur skipstjóra og skipaeldsneytisbirgja, um skip sem liggja við bryggju og viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun. Helstu nýmælin eru hertar kröfur um hámarksstyrk brennisteins og er nú m.a. gerð krafa til skipa sem liggja við bryggjur landsins að þau noti rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis eftir því sem kostur er. Sé ekki möguleiki á að nota rafmagn úr landi skal nota skipaeldsneyti með að hámark 0,1% brennisteinsinnihaldi. Sem fyrr er ákvæði sem heimilar öllum skipum að nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í stað þess að nota eldsneyti sem uppfyllir ákvæði um hámarksstyrk brennisteins.
Reglugerðin innleiðir ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins sem lýtur að því að draga úr magni brennisteins í tilteknum tegundum fljótandi eldsneytis.