Opið samráð um fyrirkomulag eftirlits með stöðum þar sem fólk hefur verið svipt frelsi sínu
Innanríkisráðuneytið vinnur nú að því að meta grundvöll fullgildingar valkvæðrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Meginþungi verkefnisins lýtur að því að skoða með hvaða hætti innlendu eftirliti með stöðum þar sem fólk hefur verið svipt frelsi sínu verði best fyrir komið í samræmi við ákvæði bókunarinnar.
Á vegum stjórnvalda sæta staðir þar sem einstaklingar eru frelsissviptir ýmiskonar eftirliti. Þar má til dæmis nefna eftirlitshlutverk Embætta landlæknis og Umboðsmanns Alþingis. Þá eru íslensk stjórnvöld aðilar að Evrópuráðssamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Á grundvelli samningsins hefur Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum (svokölluð CPT nefnd) eftirlit með aðstæðum og aðbúnaði frelsissviptra á Íslandi og kemur í því skyni reglulega til Íslands. Um starfsemi nefndarinnar og víðtækar heimildir hér á landi er fjallað í lögum vegna aðildar Íslands að samningnum nr. 15 frá 27. mars 1990.
Hvað varðar eftirlit á grundvelli OPCAT felur áðurnefnd bókun í sér að stjórnvöld undirgangist tvíþætt eftirlit. Annars vegar reglulegar heimsóknir og úttekt alþjóðlegrar eftirlitsnefndar til viðbótar við það eftirlit sem þegar er til staðar en einnig að komið verði á fót samhæfðu eftirliti innanlands með stofnsetningu þar til bærs aðila sem myndi annast eftirlit og forvarnir gegn háttsemi sem fjallað er um í samningnum.
Innanríkisráðuneytið boðar nú til samráðs um með hvaða hætti slíkri starfsemi yrði best fyrirkomið hérlendis. Áhugasömum er bent á að hafa samband við ráðuneytið á netfangið [email protected] eða í síma 545-9000.