Bjargfastur grunnur að utanríkisstefnu Íslands
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði í dag fram skýrslu sína til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. „Utanríkisstefna Íslands er í stanslausri mótun og í málflutningi og hagsmunagæslu Íslands erlendis liggja til grundvallar þau gildi og viðmið sem Ísland stendur fyrir og hagsmunir okkar. En grunnurinn er bjargfastur,“ sagði ráðherra í ræðu sinni. Varð utanríkisráðherra tíðrætt um borgaraþjónustu ráðuneytisins sem hefur vaxið mjög á síðustu árum. Í heildina er áætlað að erindi á sviði borgaraþjónustu nemi yfir 30 þúsundum á hverju ári og berast flest þeirra til sendiráðanna í Kaupmannahöfn, Ósló og London.
Gunnar Bragi gerði öryggismál í Evrópu að umtalsefni og sagði að viðsjár í álfunni væru mikið áhyggjuefni fyrir Ísland og að ógnir þyrfti að taka alvarlega. „Umræðan um öryggismál í Evrópu hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Grafalvarlegt ástand mála í austurhluta Evrópu færir heim sanninn að herskáir draugar fortíðar hafa fráleitt verið kveðnir í kútinn. Óhæfuverk og ógnvænlegur boðskapur hryðjuverkaaflanna ISIS vekur hrylling hér á landi sem annars staðar. Hryðjuverk í nærumhverfi okkar og meðal vinaþjóða undirstrika að ekkert ríki, hversu fjarri það er ströndum og löndum, er óhult,“ sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni. Því þurfi að sýna árvekni og tryggja viðeigandi viðbragðsgetu ef á þarf að halda. Sagði ráðherra gerð tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu vera á lokastigum og með henni verða í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun tekin markviss skref í átt að heildrænni stefnu um þjóðaröryggismál. Undirstrikaði ráðherra að þjóðaröryggi Íslands væri samofið og óaðskiljanlegt alþjóðlegu samstarfi.
Í ræðu sinni vék utanríkisráðherra að átökunum í Úkraínu og sagði að ófriðurinn og íhlutun Rússlands þar í landi hafi vakið evrópska ráðamenn til vitundar um að full ástæða sé til að standa fast á grundvallargildum um virðingu fyrir alþjóðalögum og réttarríkinu, lýðræðisþróun, málfrelsi og mannréttindum. Íslensk stjórnvöld leggðu áfram áherslu á að leitað verði friðsamlegra lausna en jafnframt væri skýrt að hvergi yrði hvikað frá því að íbúar Úkraínu njóti frelsis til að velja framtíðarbraut landsins á lýðræðislegan hátt. Þá væri mikilvægt að árétta að samskipti verði að eiga sér áfram stað og að deiluaðilar skirrist ekki við ræða saman uns varanlegri lausn mála verður á komið.