Hoppa yfir valmynd
20. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Norðurlöndin efld á alþjóðavettvangi

Fánar Norðurlandanna
Fánar Norðurlandanna

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, kynnti á Alþingi í gær skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2014. Norrænt samstarf felst einkum í miðlun reynslu og upplýsinga um aðgerðir landanna og niðurstöður sem snerta sameiginleg úrlausnarefni. Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á síðastliðnu ári og hafði tækifæri til að leggja mark sitt á norrænt samstarf til næstu ára.

Í upphafi formennskuárs Íslands komu löndin sér saman um yfirlýsingu sem verður leiðarljós í samstarfinu næstu árin. Samstarfið á í framtíðinni að miða að því að Norðurlöndin verði án landamæra, efla á löndin sem nýskapandi svæði og gera þau sýnilegri sem eina heild á alþjóðavettvangi. Yfirlýsingunni var fylgt eftir með samþykkt áætlunar um að kynna og skapa Norðurlöndunum stöðu á alþjóðavettvangi á árunum 2015–2018.

Á formennskuári Íslands var þremur stórum verkefnum ýtt úr vör, NordBio/Biophilia, Norræna spilunarlistanum og Norrænu velferðarvaktinni og verða þau hluti af áherslumálum Norrænu ráðherranefndarinnar næstu tvö árin. NordBio/Biophilia er stærsta verkefnið en Biophilia er kennslufræðitilraun sem byggist á samstarfi vísinda og lista. Viðfangsefni NordBio-hlutans eru afar fjölbreytt og má þar meðal annars finna nýsköpun, umhverfismál, byggðaþróun, orkumál, landbúnað, skógrækt, fiskveiðar og matvælaframleiðslu. Norræni spilunarlistinn er menningarverkefni sem er á ábyrgð norrænu menningarráðherranna. Markmið þess er að kynna norræna popptónlist, bæði innan og utan Norðurlandanna. Norræna velferðarvaktin byggist á íslensku velferðarvaktinni og bera norrænu félags- og heilbrigðisráðherrarnir ábyrgð á rannsóknaverkefninu sem hefur að markmiði að undirbúa tillögur um æskileg viðbrögð Norðurlandanna við áföllum og þróun norrænna velferðarvísa.

Árið 2014 var ár merkra tímamóta í norrænu samstarfi. Var þess meðal annars minnst að 60 ár eru liðin frá því að Norðurlöndin undirrituðu samninginn um sameiginlegan vinnumarkað. Að því tilefni var efnt til afmælisráðstefnu í Hörpu þar sem niðurstöður viðamikillar rannsóknar á norræna velferðarkerfinu og helstu áskorunum voru kynntar. Haldin var ráðstefna í tilefni af 40 ára samstarfi Norðurlandanna á sviði jafnréttismála og Svanurinn, norræna umhverfismerkið, fagnaði 25 ára samstarfsafmæli.

Mikill ávinningur af norrænu samstarfi

Eygló Harðardóttir segir skýrsluna um störf ráðherranefndarinnar fyrir liðið ár afar áhugaverða. Íslendingum hafi tekist vel að leiða samstarfið og mikil vinna hafi verið lögð í að endurskoða og betrumbæta allt innra starf Norrænu ráðherranefndarinnar sem muni gera það einfaldara og skilvirkara. Norrænt samstarf sýni vel hvað þjóðirnar eigi margt sameiginlegt, hvað áherslur þeirra séu líkar í mörgum efnum og gagnkvæmur hagur af samstarfi þeirra þar af leiðandi mikill: „Við erum sterkari saman, við getum lært hver af annarri og við getum unnið saman að mikilvægum málefnum.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta