Hoppa yfir valmynd
24. mars 2015 Utanríkisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu

Lítið barn fær vítamín
UNICEFNYHQ2012-0481CHRISTINE-NESBITT

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem studdist m.a. við úttekt á skipulagi þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðar- og mannúðaraðstoð íslenskra stjórnvalda og eru breytingarnar einkum stjórnskipulegs eðlis. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að öll starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, ÞSSÍ, færist til utanríkisráðuneytisins, að stofnuð verði ný þróunarsamvinnunefnd, og að breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi Íslensku friðargæslunnar.

Þróunarsamvinnunefnd OECD gerði úttekt á umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í aðdraganda aðildar Íslands að nefndinni árið 2013. Meðal tillagna hennar var að íslensk stjórnvöld legðu mat á skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu til að tryggja hámarks árangur og skilvirkni. Fenginn var utanaðkomandi sérfræðingur til að gera þessa greiningu og skilaði hann skýrslu sinni um mitt síðasta ár. Í kjölfarið skipaði ráðherra starfshóp fulltrúa ráðuneytis og ÞSSÍ til þess að vinna úr tillögum hans og ábendinga þróunarsamvinnunefndar OECD. Mun starfshópurinn starfa áfram að því að móta nýtt skipulag innan ráðuneytisins.

Megintillaga frumvarpsins um að færa starfsemi ÞSSÍ til utanríkisráðuneytisins miðar að því að einfalda skipulag til að hámarka árangur af þróunarsamvinnu og nýta þá fjármuni sem íslensk stjórnvöld veita til málaflokksins sem best. Með sameiningu næst betri heildarsýn yfir málaflokkinn, samhæfing og skilvirkni efld, komið veg fyrir skörun verkefna og dregið úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun.

„Með nýju fyrirkomulagi þróunarsamvinnu eru tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála styrkt og samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu samstillt við utanríkisstefnuna. Alþjóðleg þróunarsamvinna hefur tekið umfangsmiklum breytingum sem kallar á breytta nálgun í þróunarsamvinnu. Takast þarf á við hnattrænar áskoranir sem krefjast samspils þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála,“ segir Gunnar Bragi.

Við sameininguna verður öllum starfsmönnum ÞSSÍ boðin sambærileg störf í ráðuneytinu.

Frumvarp um breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta