Um 38 milljónum króna úthlutað í verkefnastyrki á sviði heilbrigðismála
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið úthlutun 38 m.kr. til 24 verkefna á vegum íslenskra félagasamtaka sem starfa á sviði heilbrigðismála. Auglýst var eftir umsóknum í október síðastliðnum og bárust 47 umsóknir. Úthlutun þeirra byggist á reglum um styrki velferðarráðuneytisins sem veittir eru af safnliðum fjárlaga ár hvert.
Í samræmi við reglur um úthlutun var auglýst eftir verkefnum sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf í samræmi við áherslur ráðherra. Þetta eru meðal annars verkefni sem fela í sér gerð fræðsluefnis sem og stuðning og ráðgjöf við félagsmenn viðkomandi félagasamtaka. Þá eru einnig veittir styrkir til starfsemi félagasamtaka sem lýtur að því hlutverki þeirra að vera málsvari félagsmanna og standa vörð um hagsmuni þeirra. Eins og fram kom í auglýsingu eru ekki veittir styrkir til verkefna sem hljóta framlög á fjárlögum, falla undir sjóði ráðuneytisins eða fá fjármuni á grundvelli samninga við ráðuneytið.
Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra lagði mat á styrkhæfi umsókna þeirra félagasamtaka sem bárust og gildi þeirra fyrir verkefnasvið ráðuneytisins. Mat á umsóknum var einkum byggt á eftirtöldum sjónarmiðum:
- gildi og mikilvægi verkefnis fyrir viðkomandi málaflokk,
- hvort umsækjanda muni takast að ná þeim markmiðum sem að er stefnt,
- hvort verkefnið sé byggt á faglegum grunni,
- fjárhagsgrundvelli verkefnis og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verkefnis.
Á meðfylgjandi yfirliti má sjá hvaða félagasamtök hljóta styrk að þessu sinni.