Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2015 Matvælaráðuneytið

Líftæknifyrirtækið Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands

Ragnheiður Elín og Ágústa Guðmundsdóttir
Ragnheiður Elín og Ágústa Guðmundsdóttir

Líf­tæknifyr­ir­tækið Zy­metech hlaut Ný­sköp­un­ar­verðlaun Íslands árið 2015 sem af­hent voru í dag á Ný­sköp­un­arþingi. Fyrirtækið er leiðandi á sviði rannsókna, þróunar, framleiðslu og sölu náttúrulegra sjávarensíma til hagnýtingar í húðvörur, lækningatæki og lyf. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor og rannsóknastjóri Zymetech veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra. 

Zymetech nýtir meltingarensím úr Norður-Atlantshafsþorski og hefur tekist að skapa verðmæta viðbótarafurð úr hráefni sem í gegnum tíðina hefur að langmestu leyti verið fargað. Þannig hefur fyrirtækið þróað afurð sem margfaldar virði þorsksins.

Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þeirri tækni sem tryggir virkni ensímanna og viðheldur stöðugleika þeirra. Byggt á þessari tækni hefur Zymetech þróað efnablönduna Penzyme®, sem er virka efnið í vörum fyrirtækisins en þeim er ætlað að draga úr virkni kvefveirunnar og hamla getu hennar til a valda kvefi. Er vara fyrirtækisins sú veltumesta í sínum flokki í Svíþjóð og hér á landi er hún seld undir vörumerkinu PreCold.

Zymetech hefur í gegnum tíðina notið stuðnings íslenskra rannsóknarsjóða, og hefur sá stuðningur, ásamt traustu og farsælu samstarfi við Háskóla Íslands og Landspítala Háskólasjúkrahús skipt sköpum við uppbyggingu fyrirtækisins, og er gott dæmi um hvernig háskólar og rannsóknarstofnanir geta stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi með stuðningi rannsóknarsjóða.

Nýsköpunarverðlaunin eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði.  

Nýsköpunarverðlaun 2015

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum