Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2015 Utanríkisráðuneytið

Við aukum norrænt samstarf á sviði varnarmála

Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna

Sameiginleg grein norrænna ráðherra varnarmála um aukna samvinnu Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála:

Við aukum norrænt samstarf á sviði varnarmála

Yfirgangur Rússa gagnvart Úkraínu og hin ólöglega innlimun Krímskaga er brot á þjóðarrétti og öðrum alþjóðlegum samningum. Framferði Rússlands er mesta áskorun sem steðjar að öryggismálum Evrópu. Þessi þróun hefur í för með sér að staða öryggismála á grannsvæðum Norðurlandanna hefur versnað umtalsvert á síðastliðnu ári. Sem fyrr ríkir stöðugleiki á svæðinu en við þurfum að vera  undir það búin að hættuástand skapist eða einstök atvik geti komið upp. Við þurfum að horfast í augu við að hlutirnir ganga ekki lengur fyrir sig eins og vant er, heldur er komin upp ný staða sem við þurfum að takast á við.

Við þurfum að takast á  við framferði Rússlands, ekki orðræðuna frá Kreml. Rússland hefur lagt í miklar fjárfestingar til að efla hernaðargetu landsins og hefur sýnt að þar séu menn reiðubúnir að beita hervaldi til að ná pólitískum markmiðum sínum, þó svo að það  brjóti gegn grunnreglum þjóðarréttar. Við verðum vör við auknar heræfingar og leyniþjónustustarfsemi á Eystrasalts- og norðursvæðunum. Rússneski herinn hegðar sér á ögrandi hátt við landamæri okkar (og margoft hefur verið brotið á fullveldi landamæra ríkjanna við Eystrasalt). Það er sérstakt áhyggjuefni að flug rússneskra herflugvéla hefur valdið beinni hættu fyrir  almenna flugumferð.

Æfingar og leyniþjónustustarfsemi Rússa hefur aukist á nágrannasvæðum okkar. Þessa verður greinilega vart á Eystrasaltssvæðinu. Rússneskur áróður og pólitískar aðgerðir eru til þess gerðar að sá fræjum sundrungar milli landa og innan stofnana á borð við Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Það hvílir mikil ábyrgð á herðum Rússa að snúa við þessari óheillaþróun.

Norðurlöndin hyggjast bregðast við þessu ástandi með samstöðu og auknu samstarfi. Norræn samvinna hvílir á sameiginlegu  gildismati og eindregnum vilja til að bregðast sameiginlega við áskorunum. Með hliðsjón af mismunandi aðild ríkjanna að ólíkum stofnunum munum við auka samstarf okkar innan ramma Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Framlag okkar er varnarlegs eðlis. Við viljum efla stöðugleika í norðanverðri Evrópu og tökum afstöðu gegn hótunum og beitingu hervalds. Nánara samstarf á Norðurlöndum og samstaða  með Eystrasaltsríkjunum mun efla öryggi í okkar heimshluta og draga úr líkum á  hernaðarlegum árekstrum. Með því að vinna saman á ákveðinn og fyrirsjáanlegan hátt  og vera sjálfum okkur samkvæm getum við lagt okkar af mörkum til að stuðla að friði og öryggi í okkar heimshluta. Samhliða því munum við efla samstöðuna innan Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins og viðhalda tengslunum yfir Atlantshafið.

Önnur atriði sem hafa áhrif á öryggispólitíska stöðu mála á Norðurlöndunum er hversu háð löndin eru alþjóðlegum viðskiptum, hættan á netárásum og hryðjuverkum ásamt  áhrifum af völdum loftslagsbreytinga. Á svæðum sem liggja að sunnanverðri og suðaustanverðri Evrópu dragast ríki og stofnanir inn í vítahring ofbeldis vegna borgarastyrjalda, þar sem einnig er hætta á átökum milli ríkja. Hreyfingar á borð við ISIS hryðjuverkasamtökin eru ógn við ríki, landamæri og stofnanir en þær hafa laðað til fylgilags við sig borgara frá Norðurlöndunum.

Á fundi varnarmálaráðherra Norðurlandanna í Arvidsjaur hinn 10. mars síðastliðinn var ákveðið að styrkja grundvölli þess að við getum fylgst með þróun mála á grannsvæðum okkar, bæði á hafi og í lofti. Meginmarkmiðið er að miðla upplýsingum um  flugumferð í því skyni að auka viðbragðstíma og draga úr hættunni á óvæntum uppákomum eða misskilningi. Ennfremur ákváðum við að halda áfram að miðla upplýsingum og reynslu af viðbrögðum við netárásum.

Til að geta brugðist sameiginlega við hættuástandi eru þjálfun og menntun nauðsynleg. Við getum nýtt einstakt æfinga- og þjálfunarumhverfi í því skyni að efla getu flug-, sjó- og landherja. Hin umfangsmikla flugæfingastarfsemi er fyrirmynd sem hægt er að þróa áfram og kanna möguleikann á að koma upp hágæða loftrýmisgæslu, svokallað Northern Flag.  Næsta skref er að bjóða viðkomandi flugherjum að nýta flugvelli hinna ríkjanna við erfið flugskilyrði.

Með því að kynna grundvöllinn að æfingum okkar, tryggjum við að önnur lönd og stofnanir þekki vel til stöðu mála á grannsvæðum okkar. Dæmi um þetta verður umfangsmikil æfing Atlantshafsbandalagsins í Noregi árið 2018.

Í alþjóðlegum aðgerðum munum við byggja á langri reynslu okkar af samstarfi  til að auka samhæfingu  hernaðarlegrar og borgaralegrar þátttöku þegar við á, til dæmis í löndum á borð við Afganistan, Malí og Írak. Norðurlöndin verða virkir þátttakendur í umræðum um þróun friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Við höfum einnig hrint af stað verkefni sem miðar að því að auka getu okkar á sviði varnarmála þar sem við, ásamt Eystrasaltsríkjunum, getum lagt okkar af mörkum á sviði umbóta í varnarmálum í samstarfslöndum okkar.

Í nokkurn tíma hefur staðið yfir endurskoðun, nútímavæðing og einföldun á samningi Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar á sviði iðnaðar tengdum hernaðarstarfsemi. Nú hefur hann verið undirritaður, sem er mikilvægur áfangi. Samningurinn inniheldur  ákvæði sem varða öryggi í birgðamálum og fjallar um sérstakar aðgerðir sem eru mikilvægar komi upp  alvarlegt neyðarástand og stríð. Þá eru í honum  ákvæði um tilteknar einfaldanir á samstarfi samningsaðila og um mögulega einföldun viðskipta þeirra með hergögn.

Auk  norræns varnarmálasamstarfs eflum við getu hvers einstaks ríkis með tvíhliða samningum  en það  styrkir forsendurnar til að bregðast við einstökum atvikum og ógnum. Tvíhliða samstarfið eflir norrænt samstarf í heild og eykur öryggi í okkar heimshluta.

Við öxlum okkar ábyrgð á grannsvæðum Norðurlandanna á óróatímum. Norræn samvinna eflir samstarfið innan Evrópusambandsins og Atlatnshafsbandalagsins og stuðlar þar með að auknu öryggi í okkar heimshluta. Sameiginleg markmið okkar eru að auka fyrirsjáanleika, stuðla að friðsamlegri þróun og forðast hernaðarlega árekstra og deilur.

Nicolai Wammen

Varnarmálaráðherra Danmerkur

 

Carl Haglund

Varnarmálaráðherra Finnlands

 

Gunnar Bragi Sveinsson

Utanríkisráðherra Íslands

 

Ine Eriksen Søreide                                                                                          

Varnarmálaráðherra Noregs

 

Peter Hultqvist           

Varnarmálaráðherra Svíþjóðar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta