Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2015 Utanríkisráðuneytið

Vestræn samvinna og sterk Atlantshafstengsl lykilatriði

Gunnar Bragi og Stoltenberg

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, áttu fund í uanríkisráðuneytinu í dag. Á fundinum fóru þeir yfir stöðu öryggis- og varnarmála, meðal annars í ljósi þeirra áskorana sem aðildarríki bandalagsins standa frammi fyrir vegna stöðu mála í Úkraínu og uppgangi hryðjuverkasamtakanna ISIS.  

Gunnar Bragi lýsti áhyggjum af þróun mála í Úkraínu og framferði Rússlands og áréttaði í því sambandi að Ísland leggi sitt af mörkum til verkefna sem ákveðin voru á  leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í september sl.. Íslensk stjórnvöld hafi í hyggju að efla gistiríkjastuðning sinn við loftrýmisgæslu bandalagsins á Íslandi og að borgaralegir sérfræðingar verði sendir til starfa á vegum bandalagsins. Lýsti ráðherra fullum stuðningi við framkvæmd ályktana leiðtogafundarins, m.a. um viðbragðsáætlun sem gerir ráð fyrir auknum viðbragðsflýti herafla og aukinni viðveru í austanverðri Evrópu. Þá sagði utanríkisráðherra mikilvægt að bregðast við auknum áhrifum hryðjuverkasamtaka á borð við ISIS, bæði í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og í Evrópu. 

„Við stöndum andspænis hraðri og ófyrirsjáanlegri þróun öryggismála í Evrópu sem minnir um margt á tíma sem við töldum vera að baki. Í því ljósi er vestræn samvinna og sterk Atlantshafstengsl lykilatriði utanríkisstefnunnar og því er heimsókn framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins til Íslands mikilvæg“ segir Gunnar Bragi.

Á fundinum lýstu Gunnar Bragi og Stoltenberg ánægju með aukið samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum. Þá lagði utanríkisráðherra áherslu á að Atlantshafsbandalagið hafi þekkingu og reynslu til að bregðast við á Norður-Atlantshafi. Í því sambandi kynnti hann drög að þjóðaröryggisstefnu Íslands sem rædd verður á Alþingi á næstu dögum en þar eru öryggishagsmunir Íslands á norðurslóðum undirstrikaðir sem og aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta