Utanríkisráðherra mælir fyrir þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland á Alþingi. Tillagan byggist á skýrslu þingmannanefndar sem skipuð var fulltrúum allra flokka sem áttu sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili.
Í framsöguræðu sinni undirstrikaði utanríkisráðherra þá skyldu stjórnvalda að tryggja öryggi borgaranna. Nú standi Alþingi á þeim tímamótum að í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun marki þingið skýra stefnu um þjóðaröryggi.
Í tillögu utanríkisráðherra eru dregin upp tíu áhersluatriði í ályktunartexta sem verða leiðarljós í öryggis- og varnarmálum Íslands á komandi árum. Stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi - lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála.
Hvílir þjóðaröryggisstefnan á þeim stoðum sem hafa tryggt öryggi- og varnir Íslands nærfellt alla lýðveldissöguna, aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Þjóðaröryggi Íslands sé þannig samofið og óaðskiljanlegt alþjóðlegu samstarfi
Áhersla er lögð á að tryggt sé að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Þá er stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum hluti þjóðaröryggisstefnunnar og sérstaklega hugað að auknu netöryggi. Enn fremur er í tillögunni ákvæði þess efnis að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.
Þá undirstrikar tillagan sérstaklega öryggishagsmuni Íslands á norðurslóðum, bæði er lýtur að alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.
Að lokum leggur utanríkisráðherra til að sett verði á laggirnar þjóðaröryggisráð sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti og hafi eftirlit með framfylgd stefnunnar.