Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2015 Forsætisráðuneytið

25. fundur stjórnarskrárnefndar

Dagskrá

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Næstu umfjöllunarefni nefndarinnar
  3. Önnur mál 

Fundargerð

25. fundur – haldinn mánudaginn 24. apríl 2015, kl. 9.00, í fundarsal Þjóðminjasafns, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir: Páll Þórhallsson, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Birgir Ármannsson, Katrín Jakobsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Jón Kristjánsson og Róbert Marshall, sem tilnefndur hefur verið til setu í nefndinni af hálfu Bjartrar framtíðar, höfðu boðað forföll.

Þá sat fundinn Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis og ritari nefndarinnar.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 24. fundar, sem haldinn var mánudaginn 13. apríl 2015, var send nefndarmönnum með tölvupósti 14. apríl. Fundargerðin var samþykkt án athugasemda.

2. Næstu umfjöllunarefni nefndarinnar

Í 1. áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar (júní 2014) kemur fram að gert sé ráð fyrir að fleiri slíkar verði birtar eftir því sem verkefni nefndarinnar miði áfram og að þegar sé hafin umræða um eftirtalin atriði: Kosningar og kjördæmaskipan; Embætti forseta Íslands; Störf og verkefni Alþingis. Jafnframt segir að fyrirhugað sé að næstu umfjöllunarefni verði þessi:  Ríkisstjórn og ráðherrar; Dómstólar; Mannréttindi

Samþykkt var að miða við útgáfu á 2. áfangaskýrslu nefndarinnar í haust og að þar verði fjallað um eftirtalin efni: Embætti forseta Íslands; Störf og verkefni Alþingis; Ríkisstjórn og ráðherrar. Þá muni stjórnarskrárnefnd beita sér fyrir málþingi um kosningar og kjördæmaskipan í lok sumars.

3. Önnur mál

Í kjölfar síðasta fundar rann út frestur nefndarmanna til að gera athugasemdir, á þessu stigi máls, við fyrirliggjandi drög að sameiginlegum texta varðandi hvert og eitt af þeim fjórum efnisatriðum sem fjallað er um í 1. áfangaskýrslu og rædd hafa verið nánar í kjölfar hennar. Einungis bárust lítilsháttar athugasemdir og voru þær teknar til greina. Nefndin hefur nánar tiltekið samþykkt (með ýmsum fyrirvörum) að sá texti verði grundvöllur vinnu við drög að tillögum og að heppilegt sé að formaður leiti eftir aðstoð sérfræðinga við útfærslur þeirra í það form. Í því sambandi vísast til vinnuáætlunar á 19. fundi. Um er að ræða eftirfarandi drög: Umhverfisvernd (drög I, dags. 10.4.2015), Auðlindir (drög III, dags. 14.4.2015); Framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu (drög III, dags. 14.4.2015); Þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta (drög IV, dags. 14.4.2015).

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.30.

SG skrifaði fundargerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta