Utanríkisráðherra veitir neyðaraðstoð til Nepal
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 10 milljónir kr. í mannúðaraðstoð til Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans vegna jarðskjálftans sem reið yfir Nepal í gærmorgun.
Nepölsk sjórnvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á þeim svæðum sem urðu hvað verst úti og hafa óskað eftir aðstoð frá alþjóðasamfélaginu. Ljóst er að gríðarlegt mann- og eignatjón hefur orðið í Nepal. Tala látinna er komin yfir 1500 og talið víst að hún eigi eftir að hækka. Margir eru slasaðir og í brýnni þörf fyrir læknisaðstoð. Einnig er skortur er á öllum helstu nauðsynjum, s.s. matvælum, aðgangi að hreinu vatni og skjóli.