Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisstofnun Vesturlands fært nýtt sneiðmyndatæki

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ávarpar gesti
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ávarpar gesti

Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands afhentu síðastliðinn laugardag stofnuninni á Akranesi nýtt tölvusneiðmyndatæki að viðstöddu fjölmenni. Nýja tækið gefur kost á mun nákvæmari rannsóknum en áður voru mögulegar.

Tölvusneiðmyndatæki eru mikilvæg við greiningu á orsökum kviðverkja en einnig þegar greina þarf ýmsa áverka, t.d. vegna slysa, s.s. á höfði, brjóstkassa og kviði. Gamla myndgreiningartæki stofnunarinnar bilaði skömmu fyrir áramót og þörf fyrir nýtt tæki var því knýjandi.

Um 120 gestir voru viðstaddir afhendingu tækisins. Formaður hollvinasamtakanna,Steinunn Sigurðardóttir rakti aðdraganda þess að samtökin beittu sér fyrir söfnun og endurnýjun tölvusneiðmyndatækis en hið fyrra var gefið af velunnurum árið 2007 og var dæmt óstarfhæft seint á liðnu ári.  

Hollvinasamtökin voru stofnuð í janúar 2014 og hófust þegar handa við að ýta úr vör átaki til að nýtt tæki fengist að stofnuninni.  Fjölmargir einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki komu að söfnuninni með stuðningi velferðarráðuneytis, en tækið kostaði tæplega 50 milljónir króna.

Að afhendingu lokinni flutti Guðjón S. Brjánsson, forstjóri þakkarávarp og heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson ávarpaði fundinn og flutti Hollvinasamtökunum þakkir fyrir þeirra mikla starf og liðsinni við öflun mikilvægs búnaðar og lýsti því að heilbrigðisþjónustu í landinu væri það dýrmætt að eiga öfluga bakhjarla eins og hér sannaðist.  Ljóst væri að mikil samstaða og samhugur ríkti um góða þjónustu stofnunarinnar og starfsemina alla og það væri til fyrirmyndar.  Þá flutti Þórir Bergmundsson, framkvæmdastjóri lækninga stutta kynningu um eiginleika búnaðarins og fór nokkrum orðum um það hversu þýðingarmikil tölvusneiðmyndarannsóknir væru í nútímalæknisfræði. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta