Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2015 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræðir orkumál í Kænugarði

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Kænugarði um fjölþjóðlegan stuðning við Úkraínu m.a. á sviði orkumála. Í tengslum við ráðstefnuna átti utanríkisráðherra fund með orkumálaráðherra Úkraínu, Volodymyr Demchyshyn, þar sem rætt var um samstarfsverkefni um uppbyggingu hitaveita í vesturhluta Úkraínu. Með verkefninu er áformað að gera heildstæða áætlun um nýtingu lághita til húshitunar sem verði liður í framtíðarorkuáætlun landsins. Með nýtingu jarðhita er stefnt að því að auka orkuöryggi í Úkraínu, draga úr vægi innflutts gass og olíu og jafnframt að stuðla að minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda í landinu. Gunnar Bragi skýrði einnig frá því að Ísland styddi samnorrænt átak í Úkraínu sem beinist að mannúðarmálum og umhverfisverkefnum á sviði bættrar orkunýtingar sem norræni umhverfissjóðurinn NEFCO stýrir.

Fjölmargir ráðamenn frá Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada voru þátttakendur á ráðstefnunni í Kænugarði sem skipulögð var af úkraínskum stjórnvöldum. Á ráðstefnunni gerði Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, grein fyrir stöðu helstu stefnumála sem miða að því að koma á varanlegum umbótum í landinu. Sérstakar pallborðsumræður voru um málefni átakasvæða, endurskipulagningu í landbúnaði og orkuiðnaði. Þá var enn fremur rætt um breytingar á viðskiptaumhverfi Úkraínu til að stemma stigu við spillingu í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta