Uppbygging Landspítala: „Kyrrstaðan rofin“
Uppbygging á Landspítala hófst með auknum fjármunum til reksturs og tækjakaupa á fjárlögum 2014 og 2015. Framkvæmdir eru að hefjast vegna byggingar sjúkrahótels við Hringbraut og fullnaðarhönnun meðferðarkjarna hefur verið boðin út. Kyrrstaðan hefur verið rofin, sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í ávarpi á ársfundi Landspítala í dag.
Uppbygging í augsýn er yfirskrift ársfundarins. Kristján Þór fjallaði m.a. um nýframkvæmdir við Landspítalann og stöðu uppbyggingar sjúkrahússins: „Fjárveitingar til heilbrigðismála voru auknar um rúma 9,4 milljarða króna milli áranna 2014 og 2015 þar af var raunaukning 5,6 milljarða.kr. framlög til að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnana, framlög til tækjakaupa og til áætlunarinnar Betri heilbrigðisþjónustu, svo nokkur verkefni séu talin“ sagði ráðherra meðal annars. Í fjárlögum þessa árs eru 945 milljónir króna ætlaðar í verkframkvæmdir sjúkrahótels og fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans sem auglýst var um liðna helgi. Í byrjun maí verður birt auglýsing vegna jarðvinnu til undirbúnings sjúkrahóteli, byggingaframkvæmdir ættu að geta hafist seinni hlutann í júní og áætlað er að hótelið verði tilbúið til notkunar árið 2017.
Nýbyggingar munu rísa við Hringbraut
Ráðherra ræddi um staðarval nýbygginga Landspítala og sagði enga spurningu í sínum huga að þær muni rísa við Hringbraut. Hann rakti hvernig staðarvalið hefur verið skoðað og endurskoðað þrisvar sinnum, árið 2002, 2004 og 2008 og alltaf með þeirri sömu niðurstöðu að byggja skuli við Hringbraut. Þá hafi vilji Alþingis ítrekað komið fram þessu til staðfestingar:
,,Ríkisstjórnin samþykkti nýlega þingsályktunartillögu um langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Þar er gert ráð fyrir 5,1 milljarði króna í framkvæmdir við Landspítala á árunum 2016 – 2019 og fjármagni til byggingar sjúkrahótels og fullnaðarhönnunar meðferðarkjarna. Fyrirvari er um fjármögnun framkvæmda við meðferðarkjarnann, en rétt er að taka fram að þessi langtímaáætlun er endurskoðuð ár hvert og það er enn langt í að framkvæmdir við meðferðarkjarnann geti hafist, einfaldlega vegna þess að fullnaðarhönnun og allt ferlið í kringum hana er tímafrekt.
Fyrir þessum ákvörðunum öllum liggja margvísleg rök. Hagkvæmni vegur þungt, því talið er að það yrði dýrara að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á öðrum stað en að byggja við Hringbraut og nýta áfram 56.000 fermetra af eldri byggingum. Nálægð við Háskóla Íslands og þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir einnig miklu máli vegna rannsókna og kennslu þar sem vel á annað hundrað starfsmanna spítalans eru jafnframt starfsmenn Háskólans. Forhönnun og allar skipulagsáætlanir liggja fyrir og eru staðfestar. Vilji Alþingis liggur fyrir.
Markmiðið er alveg skýrt og við hljótum að geta sameinast um það, þ.e. að byggja upp þjóðarsjúkrahúsið sem þörfnumst og viljum sjá, með sterka innviði, fagfólk í fremstu röð, vel tækjum búið og í húsnæði sem samræmist kröfum samtímans. Þetta er verkefnið og nú er það innan seilingar, sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra."