Hoppa yfir valmynd
6. maí 2015 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra sækir fund utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna

NB8_Family_Photo

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag og í gær þátt í utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Helsingør í Danmörku.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir þróun mála í austurhluta Evrópu og grannríkjastefnu Evrópusambandsins. Rætt var hvernig styðja megi efnahagsumbætur í þessum heimshluta, hvernig bæta megi stjórnarfar og berjast gegn spillingu. Þá ræddu ráðherrarnir hvernig styrkja megi viðskiptatengsl við samstarfsríkin í austurhluta Evrópu, styðja við bakið á uppbyggingu í orkumálum og hvernig vinna megi að framgangi jafnréttismála.
 
Ráðherrarnir ræddu einnig hvernig styðja megi við bakið á frjálsri fjölmiðlun og efla opna upplýsingamiðlun í Evrópu og samþykktu sérstaka yfirlýsingu þess efnis á fundinum
 
Ráðherrarnir fjölluðu um deilurnar í Úkraínu og samskiptin við Rússland. Gunnar Bragi segir ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu vopnahlésins í Úkraínu því vopnahlésbrot eigi sér stað daglega og að soðið geti upp úr fyrirvaralítið. Hann segir brýnt að deiluaðilar virði Minsk vopnahléssamkomulagið og framfylgi ákvæðum þess að fullu. Hann segir að í heimsókn sinni til Kænugarðs í lok apríl hafi skýrt komið fram að stjórnvöld í landinu hafi metnað til þess að framfylgja nauðsynlegum lýðræðisumbótum og bæta efnahag landsins. Til að svo geti orðið þarf að ríkja friður í landinu og tryggja þarf að fullveldi og sjálfstæði þess sé virt segir Gunnar Bragi.
 
Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í gær var rætt um breytt öryggisumhverfi í Evrópu, samstarf Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála og um þróun mála í Mið-Austurlöndum. Ráðherrarnir fjölluðu um áframhaldandi styrkingu á samstarfi utanríkisþjónusta Norðurlandanna þar sem leitað verður leiða til að virkja enn betur sendiráð þeirra í sameiginlegum hagsmunamálum. Norræn yfirlýsing um sendiráðasamstarf var gefin út að loknum fundinum. Ráðherrarnir ræddu einnig undirbúning fyrir ríkjaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um nýjan loftslagssamning sem fram fer í París í lok árs og ákváðu að Norðurlöndin muni leggja sitt af mörkum til að hvetja til fjárfestinga í loftslagstengdum verkefnum.   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta