Mælt fyrir breytingum á efnalögum
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hefur mælt á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingar á efnalögum en þær fela í sér færslu eftirlits með raf- og rafeindabúnaði frá Umhverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar, innleiðingar á EES-gerðum auk þess sem skerpt er á tilteknum ákvæðum og orðalagi í lögunum.
Talið er að eftirlit með hættulegum efnum í raf- og rafeindabúnaði falli betur að því hlutverki Mannvirkjastofnunar að hafa markaðseftirlit með rafföngum en hlutverki Umhverfisstofnunar og felur flutningur eftirlitsins því í sér samlegðaráhrif og aukna skilvirkni.
Breytingar sem lagðar eru til vegna innleiðinga EES-gerða fela m.a. í sér að allar nýjar bensínstöðvar yfir tiltekinni stærð skuli vera útbúnar kerfi til endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum og hið sama á við um eldri bensínstöðvar sem gangast undir meiriháttar endurnýjun. Í frumvarpinu eru ákvæði um að einungis verði heimilt að markaðssetja eldsneyti sem uppfyllir tilteknar kröfur og lagt til að eldsneytisbirgjar skuli bera ábyrgð á vöktun og skýrslugerðum.