EES-ráðið fundar í Brussel
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, stýrði í dag fyrir hönd EES EFTA-ríkjanna fundi EES-ráðsins í Brussel þar sem Ísland gegnir nú formennsku í Fastanefnd EFTA. Evrópumálaráðherra Lettlands, Zanda Kalnina-Lukasevica, stýrði fundinum af hálfu ESB en Lettland er í formennsku ráðherraráðs Evrópusambandsins fyrri hluta árs 2015. Einnig sátu fundinn Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, Vidar Helgesen, ráðherra EES-mála í Noregi, fulltrúar EFTA, aðildarríkja ESB og framkvæmdastjórnar ESB.
Meginefni fundarins var EES-samningurinn. Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi góðs samstarfs við ESB um framkvæmd EES samningsins og undirstrikaði að hún væri á ábyrgð allra samningsaðila. Af Íslands hálfu lýsti utanríkisráðherra því yfir að áfram þyrfti að draga úr innleiðingarhallanum sem þó færi minnkandi þrátt fyrir fjölgun gerða af hendi ESB.
Einnig var fjallað um yfirstandandi viðræður EES EFTA ríkjanna og Evrópusambandsins um framlög í Uppbyggingarsjóð EFTA. Ráðherrarnir voru sammála um að reyna eftir fremsta megni að ljúka viðræðunum sem fyrst.
Á sérstökum fundi, sem einnig var haldinn í dag, ræddu ráðherrarnir um málefni Úkraínu og Rússlands og samstarf ESB við Austur-Evrópuríki. Þá var fjallað um ástand mála í Sýrlandi, Írak og Líbýu.