Hoppa yfir valmynd
19. maí 2015 Utanríkisráðuneytið

Halldórs Ásgrímssonar minnst

Mynd: Norden.org
halldor-asgrimsson-1997

Starfsfólk utanríkisráðuneytisins minnist Halldórs Ásgrímssonar,  fyrrverandi utanríkisráðherra, með hlýhug en hann lést í gær, 18. maí. Enginn hefur gegnt embætti utanríkisráðherra lengur en Halldór sem var í því embætti frá 23. apríl 1995 til 15. september 2004 er hann varð forsætisráðherra. Í tíð sinni sem utanríkisráðherra markaði Halldór djúp spor í utanríkisstefnu Íslands og hafði mótandi áhrif á röddu Íslands í samfélagi þjóðanna. Alþjóðamál voru í mikilli deiglu á þeim tæpa áratug sem krafta Halldórs naut í utanríkisráðuneytinu. Lok kalda stríðsins höfðu gerbreytt heimsmyndinni á skömmum tíma og var það Íslandi bæði rík áskorun og tækifæri til að efla veg utanríkisstefnu þjóðarinnar. Sem utanríkisráðherra á umbrotatímum stýrði Halldór Ásgrímsson þessum mikilvæga málaflokki með styrkri hendi og skýrri sýn á hlutverk Íslands í alþjóðasamfélaginu. 


Halldór lagði alla tíð mikla áherslu á málefni norðurslóða og var einn helsti forvígismaður stofnunar Norðurskautsráðsins árið 1996. Þá var honum annt um auðlindamál og stofnaði skrifstofu auðlindamála í ráðuneytinu þar sem áherslan var lögð á sjálfbæra nýtingu auðlinda. Í utanríkisráðherratíð sinni lagði Halldór mikla áherslu á öflug og gifturík tengsl Íslands og Evrópu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið,  skilvirka hagsmunagæslu gagnvart Evrópuríkjum og opnun nýrra markaða. Þá voru öryggis- og varnarmál fyrirferðarmikil í embættistíð Halldórs í utanríkisráðuneytinu ekki síst hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkaógninni í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001 og rík samstaða Íslands með bandamönnum sínum. Norrænt samstarf og traust samvinna við Eystrasaltsríkin voru rauður þráður í starfi Halldórs Ásgrímssonar í utanríkisráðuneytinu og var því farsælt fyrir Norðurlandasamstarfið að Halldór réðst til starfa sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar eftir að krafta hans í íslenskum stjórnmálum naut ekki lengur við.

Halldór Ásgrímsson hafði mikinn metnað fyrir hönd utanríkisþjónustunnar og endurmótaði utanríksþjónustuna í núverandi mynd og færði hana í nútímalegt horf. Á þeim árum er hann gegndi embætti utanríkisráðherra voru t.a.m. opnaðar sendiskrifstofur í Peking, Strassborg, Helsinki, Vínarborg, Winnipeg, Berlín, Mapútó og Tókýó.

Starfsfólk utanríkisráðuneytisins og fjölmargir samferðarmenn Halldórs Ásgrímssonar senda eftirlifandi eiginkonu, börnum og öðrum afkomendum hugheilar samúðarkveðjur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta