Hoppa yfir valmynd
20. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðalfundur Öldrunarráðs íslands 2015

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Komið þið sæl öll sömul og takk fyrir að bjóða mér að segja nokkur orð á aðalfundi Öldrunarráðs Íslands.

Öldrunarráð Íslands eru dæmi um samtök sem hefur tekist að gera sig gildandi í mikilvægum málaflokki með því að taka virkan þátt í opinberri umræðu með faglegar áherslur að leiðarljósi. Öldrunaráð er ekki félagsskapur upphrópana og slagorða, heldur regnhlífarsamtök stofnana og félagasamtaka sem eiga það sammerkt að vilja vinna að hagsmunum skjólstæðinga sinna með upplýsingum, fræðslu og gagnrýninni umræðu. Á þennan hátt hefur Öldrunrráð starfað í rúma þrjá áratugi og orðið að nokkurs konar stofnun í samfélaginu sem tekið er eftir og hlustað á þegar fjallað er um málefni sem varða aldraða í samfélaginu.

Málefni aldraðra standa mér nærri sem ráðherra félags- og húsnæðismála, því samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna ber ég í fyrsta lagi skilgreinda ábyrgð á málefnum aldraðra. Þar eru undanskilin mál sem varða hjúkrunar- og dvalarheimili, dagvistun og Framkvæmdasjóð aldraðra sem heyra undir heilbrigðisráðherra. Í öðru lagi tekur ábyrgð ráðherraembættis míns til húsnæðismála, félagsþjónustu sveitarfélaga, jafnréttismála, vinnumála og lífeyrismála – og þetta eru auvitað allt málaflokkar sem varða aldraða ekki síður en aðra.

Fyrr í þessu mánuði fékk ég tækifæri til að ávarpa landsfund Landssambands eldri borgara, þar sem ég ræddi ýmsar áherslur mínar í málefnum sem einkum snúa að eldri borgurum.  Þar sagði ég m.a. frá gangi mála varðandi endurskoðun laga um almannatryggingar í nefnd sem Pétur H. Blöndal alþingismaður stýrir. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta hér, heldur fyrst og fremst nefna að þessu mikilvæga starfi miðar vel og mun vonandi skila okkur mun einfaldara regluverki sem er sanngjarnara og skiljanlegra en núgildandi kerfi.

Samhliða einföldun á kerfinu er rætt um að hækka ellilífeyrisaldurinn úr 67 árum í 70 ár í þrepum en endanleg útfærsla liggur ekki fyrir. Þetta er talið óhjákvæmilegt og raunar eðlilegt að gera eftir því sem lífslíkur aukast og fólk lifir ekki aðeins lengur heldur er jafnframt heilsuhraustara en áður.

Ég geri mér grein fyrir því að hækkun á lífeyrisaldri er vandmeðfarin, því fólk hefur réttmætar væntingar um að geta farið á lífeyri við ákveðinn aldur. Slík hækkun þarf því að gerast í mörgum litlum skrefum og á löngum tíma.

Þótt hækkun ellilífeyrisaldurs verði ekki endilega vinsæl hjá öllum þarf að hafa að hugfast að slík hækkun mun létta á almannatryggingum og geta komið að einhverju leyti til móts við aukinn tilkostnað við þá kerfisbreytingu sem talin er felast í þeim tillögum sem ræddar hafa verið í nefnd Péturs Blöndal.

Í tengslum við þetta verið viðraðar hugmyndir um sveigjanleg starfslok þar sem megininntakið er að heimilt verði að fresta töku lífeyris hjá almannatryggingum allt til 80 ára aldurs gegn hækkun lífeyris.

Þótt æ fleiri haldi góðri heilsu lengur fram á efri árin en áður, kemur óhjákvæmilega að því að heilsan gefur eftir og þörf skapast fyrir ýmsa þjónustu. Þá skiptir miklu máli að fyrir hendi sé þjónusta sem auðvelt er að laga að einstaklingsbundnum þörfum fólks – sem felur meðal annars í sér að hún sé veitt á réttum tíma og réttum stað og að hún sé hvorki of né van. Oft er talað um að veita þjónustu á réttu þjónustustigi – og við skiljum öll hvað í því felst. Aftur á móti finnst mér þetta orðalag minna á mikilvægt verkefni sem miðar allt of hægt – en það er að samþætta velferðarþjónustuna miklu betur, ekki síst þjónustu við aldraða.

Mikilvæg skref hafa þó verið stigin. Árið 2004 hófst vinna við að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun í Reykjavík, þrátt fyrir að ábyrgðin væri enn skipt milli ríkis og borgar. Þótt samþættingin gengi hægt komu kostirnir fljótt í ljós og því var ákveðið að stíga skrefið til fulls með sameiningu. Reykjavíkurborg tók að sér rekstur heimahjúkrunar og til varð heildstæð þjónusta við fólk í heimahúsum undir einum hatti.

Samþætt þjónusta er betri -  og fram á það hefur verið sýnt með mælingum að þjónusta við fólk í heimahúsum í borginni hefur batnað eftir að heimahjúkrunin og heimaþjónustan var sameinuð – og sennilega kom það engum á óvart.

Góðir gestir.

Þótt uppbygging og rekstur hjúkrunarheimila heyri undir heilbrigðisráðherra en ekki embætti félags- og húsnæðismálaráðherra – eru dvalar- og hjúkrunarrými fyrir aldraða engu að síður þjónustuúrræði sem skipta miklu máli. Þetta tengist allt og því betri þjónustu og stuðning sem hægt er að veita fólki heima fyrir, því minni verður þörfin fyrir stofnanarými - sem ég leyfi mér að kalla svo til að greina þarna á milli.

Öldruðum fjölgar hratt á Vesturlöndum og aldurssamsetning þjóða breytist. Íslendingar 70 ára og eldri eru nú rúmlega 29.000. Búist er við að eftir tuttugu ár verði þeir um tvöfalt fleiri.  Þetta er staðreynd sem taka þarf mið af við þróun samfélagsins og forgangsröðun verkefna.

Við þurfum að snúa opinberri umræðu um málefni aldraðra frá vandamálum að lausnum. Samhliða þurfum við að sinna stefnumótun sem tekur mið af rannsóknum og raunhæfum tækifærum. Við þurfum stefnu sem setur í forgang þarfir fólksins sem þarf á þjónustu að halda, sama hver veitir hana.

Heilbrigðisráðherra hefur boðað að í sumar muni hann kynna áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu, en fram kom í ávarpi hans á ársfundi Landspítalans fyrir skömmu að á næstu 5 – 6 árum þurfi að bæta við um 500 nýjum hjúkrunarrýmum, flestum þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Þessi þörf skýrist af hlutfallslegri fjölgun aldraðra og það er mjög mikilvægt að henni sé sinnt, því sama hvað við gerum vel í uppbyggingu og skipulagningu annarrar þjónustu þá verður alltaf einhver hluti aldraðra þannig settur hvað heilsu varðar að búseta á eigin heimili er ekki valkostur.

Eins og heilbrigðisráðherra sagði í ávarpi sínu er fjölgun hjúkrunarrýma óhjákvæmileg en við erum jafnframt sammála um að öldrunarþjónusta þurfi að hafa mun víðari skýrskotun þar sem áhersla er lögð á að efla þjónustu við fólk í heimahúsum, sinna forvörnum og endurhæfingu og takast þannig á við öldrunarmálin að sem bestur árangur náist fyrir fólk og samfélag.

Fyrst ég er komin út á þá braut að ræða um hjúkrunrarheimili verð ég að nefna það mál sem ég þykist vita að margir hér hafi skoðun á – og ekki endilega allir þá sömu,  en það er fyrirkomulag á greiðslum aldraðra fyrir búsetu á hjúkrunarheimili og vasapeningakerfið svokallaða. Nú hefur um skeið verið unnið að tillögum í ráðuneytinu sem miða að því að breyta þessu þannig að aldraðir njóti meira sjálfræðis. Byggt er á því að einstaklingar greiði milliliðalaust fyrir alla þjónustu sem þeir fá á hjúkrunarheimilum, aðra en heilbrigðisþjónustu og aðra umönnun.

Greiðslufyrirkomulagið yrði þannig tvíþætt, þar sem annars vegar væru daggjöld ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu og umönnun en einstaklingarnir myndu greiða fyrir almenna framfærslu að öðru leyti. Hins vegar er gert ráð fyrir húsaleigukostnaði sem tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu viðkomandi.

Ég bind vonir við að hægt verði að taka upp breytt kerfi áður en langt um líður en til umræðu er að prófa það fyrst sem tilraunaverkefni í ljósi þess að þetta er umtalsverð breyting sem þarf að vanda vel til. Það væri áhugavert að heyra skoðanir ykkar á þessum áformum, hvort sem þið sjáið á þeim kosti eða galla. Þessi breyting er ekki einföld og hún virðist vera fljótt á litið og því er mikilvægt að hún fái vandaða umfjöllun og góðan undirbúning.

Góðir gestir.

Málefni aldraðra eru ekki nokkur afmörkuð stjórnsýsluverkefni sem þarf að leysa á sem bestan máta, heldur eru málefni aldraðra lífið sjálft á tilteknu æviskeiði í öllum sínum margvíslegu myndum. Það er hægt að búa sig á ýmsan hátt fyrir efri árin – og ég held að með aukinni umræðu og fræðslu séu augu fólks að opnast fyrir því hve góður undirbúningur að efri árunum getur orðið til þess að auka lífsgæði umtalsvert. Öldrunarráð Íslands hefur sinnt þessari umræðu mjög vel, meðal annars með framtíðarþingum sínum um farsæla öldrun sem haldin hafa verið í samstarfi við fleiri aðila við góðar undirtektir.

Mig langar að ljúka orðum mínum hér á skilgreiningu framtíðarþingsins árið 2013 á farsælli öldrun en hún var eitthvað á þessa leið: „Farsæl öldrun felst meðal annars í því að aldraðir njóti virðingar sem þegnar samfélagsins og séu ekki skilgreindir út frá elli, hrumleika og vangetu. Mikilvægt er að aldraðir haldi reisn sinni, virðing sé borin fyrir skoðunum og gjörðum þeirra og að þeir séu spurðir álits.“

Þetta ætti að vera sjálfsagt en þannig hefur það þó ekki verið – og þannig er það ekki enn þann dag í dag. Við færumst þó stöðugt nær þessari sýn og fjarlægjumst um leið þá forræðishyggju sem svo lengi hefur litað umfjöllun, viðhorf og umræðu um ákveðna hópa í samfélaginu.

Góðar stundir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta