Áhersla á sjálfbæra orku fyrir kynslóðir framtíðar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðstefnu um sjálfbæra orku fyrir kynslóðir framtíðar. Að henni standa Sameinuðu þjóðirnar og SE4ALL-vettvangurinn, (sjálfbær orka fyrir alla) en Ísland er í hópi sjö ríkja sem hafa stutt við rekstur hans, auk alþjóðastofnana á borð við SÞ. Þá á forseti Íslands sæti í ráðgefandi stjórn SE4ALL- vettvangsins. Sjónum ráðstefnunnar er beint að fjármögnun og þróun sjálfbærra orkugjafa.
Gunnar Bragi tók þátt í pallborðsumræðum þar sem sérstaklega var fjallað um leiðir til að mæta kröfunni um að allir jarðarbúar hefðu aðgang að endurnýjanlegri orku árið 2030. Í framsögu sinni lagði hann áherslu á stefnu Íslands á alþjóðavettvangi um nýtingu jarðhita á heimsvísu. Ísland er í dag aðalsamstarfsaðili Alþjóðabankans í jarðhita og í sameiningu er nú unnið að framkvæmd nokkurra jarðhitaverkefna í Austur Afríku eins og í Eþíópíu og Tansaníu.
Utanríkisráðherra skýrði frá frumkvæði Íslands og IRENA samatakanna um stofnun samstöðuhóps um nýtingu jarðhita á heimsvísu sem fyrirhugað er að ýta formlega úr vör í París í desember nk. á vettvangi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Fram kom í máli Gunnars Braga að Ísland leggur mikla áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til lausnar loftslagsvandanum. Með áherslu á samvinnu við helstu stofnanir alþjóðasamfélagsins í orkumálum, Alþjóðabankann og IRENA, hefur tekist að fá stuðning fjölmargra ríkja, svæðabundinna þróunarbanka og loftslagssjóða við jarðhitanýtingu. Þannig hafa náðst fram margfeldisáhrif sem eftir er tekið.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, setti SE4ALL á fót 2011 til að stuðla að því að allir í heiminum hafi aðgang að hreinni endurnýjanlegri orku. Nánar má lesa um SE4ALL á heimasíðu verkefnisins: www.se4all.org
Síðar í dag á Gunnar Bragi fund með Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, en þeir munu m.a. ræða um vinnu sem stendur yfir um þessar mundir um ný markmið um sjálfbæra þróun.