Verkefnum gegn matarsóun hrint í framkvæmd
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að veita Umhverfisstofnun 1,8 milljónir króna til verkefna sem ætlað er að sporna gegn matarsóun. Með fjárveitingunni er fylgt eftir tillögum starfshóps um matarsóun sem skilaði ráðherra skýrslu í lok apríl sl.
Sérstök áhersla er lögð á fræðslu almennings í því skyni að ýta undir vitundarvakningu um matarsóun. Stefnt er að því að til verði ein vefgátt um matarsóun þar sem upplýsingum og leiðbeiningum sem þegar eru til staðar verður safnað saman og þau þannig gerð aðgengileg fyrir almenning. Gerð verður spurningakönnun þar sem könnuð verða viðhorf Íslendinga til matarsóunar og þá verður áhersla lögð á að ýta undir meðvitund starfsmanna og viðskiptavina á veitingastöðum um matarsóun. Loks verður ráðist í fræðsluátak um geymsluþolsmerkingar og geymsluaðferðir matvæla.
Verkefnin eru í samræmi við áherslur ráðherra sem eru að hafa góða umgengni mannsins við náttúruna og nýtni að leiðarljósi.
Þess má geta að nokkrar þeirra tillagna starfshópsins, sem ekki eru nefndar hér að ofan, eru í vinnslu hjá öðrum aðilum, s.s. Samtökum iðnaðarins, Landvernd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Starfshópinn skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra haustið 2014 í framhaldi af málþingi sem ráðherra efndi til á Degi umhverfisins sama ár. Í starfshópnum sátu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Bændasamtaka Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kvenfélagssambands Íslands, Vakandi - samtaka gegn sóun matvæla og Landverndar en hópurinn starfaði undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.