Ráðherra tekur á móti framkvæmdastjóra Evrópuráðsins
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, áttu í dag fund í utanríkisráðuneytinu en Jagland heimsækir Ísland í dag og á morgun í boði utanríkisráðherra. Á fundinum ræddu þeir m.a. stöðu lýðræðis í Evrópu, baráttuna gegn hryðjuverkum og öfgahópum, og vinnu stofnunarinnar því tengdri, svo og ástandið í Úkraínu; bæði afstöðu Íslands og aðkomu Evrópuráðsins.
Gunnar Bragi og Jagland fóru yfir niðurstöður nýlegrar skýrslu framkvæmdastjórans, þar sem lögð er áhersla á sjálfstæði dómstóla og réttarkerfis, verndun tjáningarfrelsis, stuðning við frjáls félagasamtök og stuðning við helstu grunnstoðir og -stofnanir í lýðræðissamfélagi. Í tengslum við þetta vakti utanríkisráðherra máls á nauðsyn frekari aðgerða til að vinna gegn ofbeldi gegn konum. Lagði hann áherslu á að hvetja karla til þátttöku í þeirri baráttu og benti m.a. á ágætan árangur af rakarastofuráðstefnunni sem haldin var í janúar síðastliðnum.
Í hádeginu hélt Jagland fyrirlestur í Háskóla Íslands um stöðu mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum og um framtíðarskipan Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá mun hann funda með öðrum ráðherrum og þingmönnum á meðan dvöl hans stendur.