Thorbjörn Jagland heimsótti innanríkisráðuneytið
Thorbjörn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins og fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Noregs, heimsótti innanríkisráðuneytið í dag ásamt nánustu samstarfsmönnum. Fundinn sátu Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneyti, fulltrúar ráðuneytisins svo og Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra og fulltrúar utanríkisráðuneytis.
Auk funda í innanríkisráðuneyti fundar Jagland með forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, utanríkisráðherra og forseta Alþingis og hann hélt síðan erindi á málstofu í dag. Heimsókn hans lýkur á morgun.
Á dagskrá fundar Jaglands og fulltrúa innanríkisráðuneytis voru umræður um stöðu mannréttindamála hér á landi og þýðingu evrópskrar löggjafar á því sviði, sem og baráttuna gegn öfgahópum og hryðjuverkum í Evrópu. Fjallað var um skýrslu Evrópuráðsins um stöðu lýðræðis og mannréttinda í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Ræddi ráðuneytisstjóri um áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir á þeim sviðum en í skýrslunni er meðal annars bent á atriði sem færa mætti til betri vegar og er Evrópuráðið einnig vettvangur til að vinna sameiginlega að umbótum á þessu sviði.