Hoppa yfir valmynd
16. júní 2015 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarmál rædd á fundi með utanríkisviðskiptaráðherra Ekvador

Gunnar Bragi og Diego Aulestia

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í gær fund með Diego Aulestia, utanríkisviðskiptaráðherra Ekvador.  Aulestia var í heimsókn hér á landi í tilefni áhuga Ekvador á að hefja formlegar fríverslunarviðræður milli Ekvador og EFTA.

Ráðherrarnir ræddu viðskipti ríkjanna tveggja og hvernig þau mætti efla til lengri tíma. Gerði Aulestia grein fyrir stefnu Ekvador í gerð viðskiptasamninga og rifjaði upp að landið hefði nýlega gerst aðili að fríverslunarsamningi ESB við Kólumbíu og Perú. Í því sambandi minnti hann á að til stæði að undirrita sameiginlega samstarfsyfirlýsingu á milli EFTA-ríkjanna og Ekvador á ráðherrafundi EFTA í næstu viku, en slík yfirlýsing er gjarnan undanfari eiginlegra fríverslunarviðræðna. Jafnframt kvaðst ráðherrann vonast til þess að fríverslunarviðræður milli EFTA-ríkjanna og Ekvadors gætu hafist sem allra fyrst.

Utanríkisráðherra lýsti yfir stuðningi Íslands við að fyrstu skref í átt til slíkra viðræðna yrðu tekin á ráðherrafundinum. 

Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf ríkjanna á sviði jarðvarma en Ekvador er hluti af samstarfsverkefni um jarðhitamál í S-Ameríku sem Ísland kemur að.  Í heimsókn sinni hingað til lands kynnti Aulestia sér jafnframt starfsemi Auðlindagarðsins í Svartsengi og átti fund með fulltrúum Samtaka Verslunar og Þjónustu og Viðskiptaráðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta