Hoppa yfir valmynd
23. júní 2015 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Íslands og Sviss funda í Bern

Gunnar Bragi og Burkhalter

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Didier Burkhalter, utanríkisráðherra Sviss í Bern. Ráðherrarnir ræddu alþjóða- og evrópumál og samskipti og samvinnu ríkjanna.

Gunnar Bragi greindi frá stöðunni í samskiptum Íslands og ESB og Burkhalter  upplýsti jafnframt um samskipti Sviss við Evrópusambandið, einkum viðræður þeirra um tvíhliðsamninga Sviss við ESB.

Ráðherrarnir ræddu umhverfismál og framlag þjóðanna í baráttu gegn hlýnun jarðar. Gunnar Bragi sagði áherslur Íslands vera að hrein orka sé lykilatriði við lausn loftslagsvandans. Framlag Íslands í loftslagsmálum í heiminum felst m.a. í að miðla þekkingu í orkumálum, einkum jarðhita. Ísland vinni með fjölmörgum ríkjum að framtíðar jarðhitanýtingu sem leið til að stuðla að jákvæðum loftslagsbreytingum.

Fundur ráðherranna er fyrsti tvíhliða fundur utanríkisráðherra landanna síðan 2002 en sá fundur fór fram í Prag. Ísland og Sviss eiga í góðum samskiptum sem byggja á gömlum merg, ekki síst EFTA-samstarfinu. Mikill áhugi er á Íslandi meðal almennings í Sviss. Þannig verður íslensk náttúra og menning í öndvegi á svissnesku listahátíðinni Culturescapes 2015 í haust. Þá sækir fjöldi ferðamanna Ísland heim ár hvert. Löndin hafa jafnframt átt með sér gott samstarf á sviði alþjóðamála. Nýlega sóttu t.d. fulltrúar Sviss fund sérfræðinga á sviði kynjajafnréttis sem haldinn var í utanríkisráðuneytinu þar sem staða jafnréttismála í tengslum við framlög til þróunarmála og ný markmið um sjálfbæra þróun voru rædd.

Ráðherrarnir ræddu ýmis alþjóðamál og lýstu þeir áhyggjum af  þróun mála í Rússlandi og Úkraínu.

Þá ræddu ráðherrarnir ýmsa möguleika varðandi samstarf ríkjanna sem vilji er til að auka og bauð Gunnar Bragi svissneska ráðherranum að heimsækja Ísland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta