Hoppa yfir valmynd
25. júní 2015 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samið við Mílu um hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum

Í dag var undirritaður samningur milli fjarskiptasjóðs, f.h. innanríkisráðuneytisins, við Mílu ehf. um fyrri hluta hringtengingar ljósleiðarastrengs um Vestfirði. Ekkert fjarskiptafélag bauð sig fram til verksins á markaðslegum forsendum og bauð sjóðurinn því út styrk í mars síðastliðnum. Þrjú tilboð bárust á bilinu 56,3 til 123 milljónir króna og átti Míla hagstæðasta tilboð. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 131 milljón króna.

Skrifað undir samning um ljósleiðarahringtengingu á Vestfjörðum.
Skrifað undir samning um ljósleiðarahringtengingu á Vestfjörðum.

Verkið felst í lagningu á ljósleiðarastofnstreng milli Staðar í Hrútafirði og Hólmavíkur með möguleika á ljósleiðaraheimtaugum að byggingum á leið strengsins. Heimtaugar heimila og fyrirtækja eru þó ekki hluti þessa samnings. Orkubú Vestfjarða samnýtir jarðvinnuframkvæmdina á stærstum hluta leiðarinnar fyrir lagningu rafstrengs. Stefnt er að því að ljúka þessum samhliða framkvæmdum á árinu.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra skrifaði undir samninginn ásamt Jóni Kristjánssyni, forstjóra Mílu, og Arnbjörgu Sveinsdóttur, formanni stjórnar fjarskiptasjóðs.

Seinni hluti hringtengingar Vestfjarða felst í sambærilegri framkvæmd á leiðinni milli Nauteyrar í botni Ísafjarðardjúps og Súðavíkur. Fjarskiptasjóður mun bjóða út styrk til þess verks á næstunni. Orkubú Vestfjarða hyggst jafnframt samnýta þá framkvæmd að miklu leyti. Stefnt er að framkvæmdum á þeirri leið á næsta ári. Að þeirri framkvæmd lokinni verður komin á hringtenging ljósleiðara um Vestfirði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta