Hoppa yfir valmynd
29. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2014

Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2014 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Helstu niðurstöður eru að tekjujöfnuður ársins var jákvæður um 46,4 ma.kr. sem er betri afkoma en gert hafði verið ráð fyrir. Til samanburðar var smávægilegur tekjuhalli á árinu 2013.

Tekjurnar árið 2014 voru töluvert hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og munaði þar mest um óreglulegar tekjur eins og háar arðgreiðslur, meðal annars frá Landsbanka Íslands, en einnig höfðu aukin umsvif í efnahagslífinu töluverð áhrif. Gjöldin voru nokkuð umfram heimildir fjárlaga en auknar heimildir voru samþykktar með fjáraukalögum ársins sem gerðu meðal annars ráð fyrir að hluta af tekjuaukanum væri ráðstafað í flýtingu á niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána og létta þannig af gjaldfærslum síðar. Frumjöfnuður ársins var jákvæður um sem nemur 5,3% af landsframleiðslu samanborið við 3,0% árið 2013.

Á árinu 2014 var ríkissjóður með hreinan lánsfjárafgang sem nam um 4% af landsframleiðslu, samanborið við 1,6% lánsfjárþörf árið áður. Þetta var hagstæðari niðurstaða en gert hafði verið ráð fyrir. Í fjárlögum var hrein lánsfjárþörf áætluð um 0,9% af vergri landsframleiðslu en um 2% lánsfjárafgangur í fjáraukalögum.
Efnahagsleg staða Íslands styrkist
„Efnahagsleg staða Íslands sem hefur verið að styrkjast að undanförnu einkennist af stöðugleika með lágri verðbólgu, litlu atvinnuleysi, auknum kaupmætti og hallalausum ríkisrekstri. Töluverður hagvöxtur hefur verið undanfarin ár og nam hann 1,9% árið 2014. Mikil umsvif voru í hagkerfinu en þrátt fyrir það hefur viðskiptajöfnuður við útlönd verið jákvæður. Öflugur hagvöxtur og aukin eftirspurn í efnahagslífinu hafa haft jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings. Hann segir mikla áherslu hafa verið lagða á að koma ríkisrekstrinum í jafnvægi og skila afgangi í stað halla undanfarinna ára. „Ríkisstjórnin hefur lagt á það höfuðáherslu að ná tökum á ríkisrekstrinum ásamt því að minnka álögur á einstaklinga og atvinnulífið og stuðla að aukinni fjárfestingu í hagkerfinu. Miklu máli skiptir að styrkja stöðu ríkissjóðs enn frekar á næstu árum og að vinna að frekari lækkun ríkisskulda sem hlutfalls af landsframleiðslu,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.
Staðfestur með rafrænum undirritunum
Fjármála- og efnahagsráðherra, fjársýslustjóri og ríkisendurskoðandi staðfestu ríkisreikning með rafrænum undirritunum og nýttu til þess rafræn skilríki, en þetta er annað árið í röð sem reikningurinn er undirritaður með þessum hætti. Ísland er í hópi fyrstu ríkja til þess að staðfesta ríkisreikning með þessum hætti.Reikninginn í heild sinni með þeim sundurliðunum og skýringum sem honum fylgja má finna á vef Fjársýslunnar, fjs.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta