Stofnun Innviðafjárfestingabanka Asíu
Stofnskrá Innviðafjárfestingabanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB), sem Ísland er stofnaðili að, var samþykkt á ráðherrafundi stofnríkja bankans í Peking í dag. Ragnar Baldursson sendifulltrúi skrifaði undir fyrir hönd Íslands. Þá var ákveðið að stefna að kosningu forseta bankans á sjötta undirbúningsfundi stofnríkja, sem haldinn verður í Tíblisi í ágúst.
AIIB er fjárfestinga- og þróunarbanki sem mun styðja aðgerðir til að efla innviði í Asíu. Aðild Íslands að bankanum getur þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu, og er ætlað að styrkja góð samskipti Íslands og Asíuríkja. Stofnfjárhlutur Íslands miðast við stærð hagkerfisins og er um 0,018% af heildar stofnfé bankans. Sem stofnaðili verður atkvæðavægi Íslands þó mun hærra, eða um 0,28%.