Aukið samstarf Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands um þjónustu við konur með brjóstakrabbamein
Landspítali og Krabbameinsfélag Íslands hafa gert með sér samning sem felur í sér aukið samstarf þeirra á milli á sviði hefðbundinnar krabbameinsleitar í brjóstum og sérhæfðrar þjónustu við konur með brjóstakrabbamein. Markmiðið er að auka samhæfingu og bæta þjónustu.
Leit að krabbameinum í brjóstum kvenna er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða reglubundna hópleit þar sem einkennalausum konum er boðin þátttaka samkvæmt ákveðnum leiðbeiningum. Hins vegar er klínísk brjóstaskoðun sem fram fer hjá konum ef niðurstaða hópleitar bendir til þess að nánari skoðunar er þörf eða ef konur hafa sjálfar fundið einkenni frá brjóstum sem þarfnast nánari skoðunar og greiningar. Krabbameinsfélagið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar þjónustu, hvort sem um er að ræða hópleit eða klíníska brjóstaskoðun. Með samningnum sem undirritaður var í dag felst hins vegar ákvörðun um þá stefnu að ábyrgð á klínískri skoðun verði færð á hendi Landspítalans. Tveir röntgenlæknar Landspítalans annast klíníska skoðun og er nýmæli að annar þeirra verður yfirlæknir leitarstarfsins. Krabbameinsfélagið leggur til annað starfsfólk, húsnæði, aðstöðu og nauðsynlegan búnað.
Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, sagði við undirritun samningsins í dag að með honum væri þessi mikilvæga þjónusta bundin í fastari skorður en áður og skýrt kveðið á um aðkomu Landspítalans: „Krabbameinsfélagið hefur sinnt þessari þjónustu vel í til fjölda ára en nú er orðið tímabært að Landspítalinn taki yfir klíníska hlutann þannig að þar sé sinnt allri sérhæfðri þjónustu við konur vegna brjóstakrabbameina.“ Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir Krabbameinsfélagið hafa unnið geysigott starf í gegnum tíðina sem sé svo sannarlega þakkarvert. Þar sem þessi þjónusta sé afar viðkvæm sé mikilvægt að tryggja til framtíðar samfellu hennar á hendi reyndra sérfræðinga. Það sé einmitt markmiðið með samningnum þar sem stefnt er að því að klíníski hluti þjónustunnar verði færður á ábyrgð Landspítalans.
Krabbameinsleit, hvort sem er hópleit eða klínískar brjóstaskoðanir, mun áfram fara fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð og þjónusta Sjúkrahússins á Akureyri verður einnig óbreytt.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði við undirritunina í dag að hann teldi samninginn eðlilegt framhald á áralöngu og farsælu samstarfi Krabbameinsfélagsins og Landspítala: „Það sem skiptir öllu máli er að veita sjúklingum bestu mögulega þjónustu og að bæta lýðheilsu í landinu. Um það snýst þetta samstarf. Árangurinn hefur til þessa verið mjög góður en markmiðið er að gera enn betur og ég hef fulla trú að það takist.“
Ragnheiður Haraldsdóttir og Páll Matthíasson undirrituðu samninginn í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð í dag. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var viðstaddur undirritunina, ásamt Kristjáni Oddssyni, yfirlækni Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, og Ásbirni Jónssyni, yfirlækni geislagreininga á Landspítala.