Ísland í samstarfi við Malaví í 25 ár
Í dag lauk heimsókn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Malaví þar sem Ísland hefur starfað í þróunarsamvinnu í 25 ár. Á meðan heimsókninni stóð fundaði Gunnar Bragi með utanríkisráðherra Malaví, ráðherra sveitarstjórnarmála og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins vegna samstarfs ríkjanna í þróunarsamvinnu en á fundunum var einnig rætt um viðræður um ný markmið í þróunarsamvinnu, jarðhitamál og mannréttindi.
Þá fór Gunnar Bragi til Mangochi-héraðs þar sem íslensk stjórnvöld hafa stutt við uppbyggingu um árabil í gegnum verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands en Mangochi er talið eitt af fátækustu héruðum Malaví. Utanríkisráðherra fundaði með héraðsyfirvöldum og heimsótti héraðssjúkrahúsið, grunnskóla og þorp þar sem byggðar hafa verið vatnsveitur. Í Mangochi er verið að byggja fæðingardeild fyrir íslenskt þróunarfé í samvinnu við héraðið sem mun þjónusta milljón íbúa héraðsins en vöntun er á fæðingarþjónustu þar sem a.m.k. 60 fæðingar eiga sér stað á hverjum degi innan Mangochi á núverandi heilsugæslum.
Verkefni ÞSSÍ í héraðinu eru margþætt héraðsþróunarverkefni þar sem stutt er við uppbyggingu á sviði lýðheilsu, menntunar og vatns- og hreinlætismála.
Gunnar Bragi fundaði einnig með fulltrúum annarra gjafaríkja, UNWomen, UNICEF, WFP, IMF og heimsótti skrifstofu Rauða Krossins sem bæði RKÍ og utanríkisráðuneytið hafa stutt.
Árið 2015 renna 26% af heildarframlögum ÞSSÍ til Malaví auk marghliða aðstoðar frá utanríkisráðuneytinu í gegnum alþjóðastofnanir sem Ísland á aðild að.