Hoppa yfir valmynd
23. júlí 2015 Utanríkisráðuneytið

Vegna "5 ríkja samráðs" um fiskveiðar í Norður Íshafi 

Utanríkisráðuneytið hefur kallað sendiherra Bandaríkjanna, Danmerkur, Kanada, Noregs og Rússlands til fundar í ráðuneytinu og komið á framfæri athugasemdum við samráð ríkjanna fimm um fiskveiðar í Norður-Íshafi, en yfirlýsing ríkjanna var undirrituð í Osló í síðustu viku. 

Yfirlýsing ríkjanna fimm er óskuldbindandi en Ísland telur mikilvægt að allir aðilar sitji við borðið til að tryggja skilvirkni og styrkja grundvöll samstarfs um fiskveiðar á alþjóðlegum hafsvæðum þ.m.t. í Norður Íshafi.

Loftslagsbreytingar og hlýnun sjávar hafa m.a. í för með sér að alþjóðleg hafsvæði á Norðurslóðum geta í náinni framtíð orðið aðgengileg fyrir fiskveiðar. Stjórnun og fyrirkomulag slíkra veiða varða Ísland, sem byggir afkomu sína ekki síst á auðlindum sjávar, miklu. Ísland leggur áherslu á að vísindaleg þekking og veiðireynsla landsins geti verið mikilvægt framlag til samráðs og viðræðna á þessu sviði.

Mikilvægt er að öll ríki sem hagsmuna eiga að gæta taki þátt í sameiginlegri stefnumótun á Norðurslóðum. Íslandi var ekki boðin aðild að yfirlýsingunni, þrátt fyrir að málefni hafsins skipti Ísland sköpum og Ísland sé meðal leiðandi fiskveiðiþjóða í heiminum. Allt frá því að ríkin fimm hófu samráð sín í milli án þátttöku Íslands, með Ilullisat-yfirlýsingunni frá 2008, hafa íslensk stjórnvöld reglubundið gert athugasemdir við það að Íslandi sé haldið utan við umræður um mikilvæg málefni sem varða Norðurslóðir. 

Afstaða íslenskra stjórnvalda byggir m.a. á eftirfarandi:

  • Málefni hafsins eru gríðarlega þýðingarmikil fyrir Ísland og Ísland hefur lagt þunga áherslu á svæðisbundið samstarf á traustum vísindalegum grundvelli. Ísland tekur t.a.m. virkan þátt í Norðaustur- Atlantshafs fiskveiðinefndinni (NEAFC), Norðvestur Atlantshafs fiskveiðistofnuninni (NAFO) og Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og er samningsaðili að úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna sem myndar lagalegan ramma um fiskveiðar á alþjóðlegum hafsvæðum, m.a. í Norður Íshafi;
  • Ísland er meðal leiðandi fiskveiðiþjóða í heiminum og ekkert Norðurskautsríkjanna á jafn mikið undir fiskveiðum og Ísland;
  • Ísland viðurkennir að óvissa ríki um framtíðarnýtingu fiskistofna á Norðurslóðum en leggur um leið áherslu áaðvísindaleg þekking og veiðireynsla Íslands geti verið mikilvægt framlag til samráðs og viðræðna á þessu sviði;
  • Ísland harmar að þrátt fyrir að hafa ítrekað farið fram á að vera þátttakandi í þessu starfi hafa ríkin fimm afráðið að halda Íslandi utan við samráð og undirbúning að umræddri yfirlýsingu;
  • Þátttaka í viðræðum ríkjanna fimm hefur með réttu ekki verið skilyrt við að ríkin ættu efnahagslögsögu að Norður Íshafinu enda uppfylla hvorki Noregur né Færeyjar slíkar forsendur. Ísland hefur sömu réttindi og skyldur til að taka þátt í öllum viðræðum um framtíðarþróun fiskveiða á alþjóðlegum hafsvæðum í Norður Íshafi og því órökrétt með öllu að útiloka Ísland frá þátttöku;
  • Yfirlýsing ríkjanna fimm er óskuldbindandi að alþjóðalögum og er ekki gerð á vegum eða í nafni nokkurrar alþjóðastofnunar eða alþjóðasáttmála. Ísland er því óbundið af þessari yfirlýsingu en telur að nauðsynlegt sé að allir aðilar sitji við borðið til að tryggja skilvirkni og styrkja grundvöll samstarfs um fiskveiðar á alþjóðlegum hafsvæðum, þ.m.t. í Norður Íshafi.

Íslensk stjórnvöld munu áfram leggja áherslu á að þekking og reynsla Íslendinga á fiskveiðum í norðurhöfum nýtist við framtíðarstefnumótun í þeim málum og að Ísland sé viðurkenndur þátttakandi í samráði ríkjanna á jafnréttisgrundvelli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta