Samkomulag um niðurfellingu tolla á upplýsingatæknivörum
Samkomulag náðist í dag á milli tæplega 50 þátttökuríkja WTO í viðræðum um útvíkkun svokallaðs upplýsingatæknivörusamnings (ITA-samningsins) um niðurfellingu tolla á rúmlega 200 upplýsingatæknivöruflokkum.
Aðilar að samkomulaginu eru m.a. ESB, Bandaríkin, Kína, Kanada, Japan, Sviss, Noregur auk Íslands. Samningurinn er fyrsti samningur sem tengist WTO í 18 ár sem fjallar um tollaniðurfellingar.
Stefnt er að því að samningurinn taki gildi 1. júlí 2016 og falla tollar strax niður í langflestum vöruflokkunum en fyrir sumar vörur verða tollaniðurfellingar í fjórum áföngum til ársins 2019 þegar samningurinn kemst að fullu til framkvæmda.
Á árunum 2012 og 2013 fluttu íslensk fyrirtæki út vörur, s.s. rafeindavogir, röntgentæki og ýmis fjarskiptatæki, að verðmæti samtals 9 milljarða ISK sem njóta munu tollfríðinda samkvæmt samningnum.