Umhverfisráðherrar Íslands og Frakklands funda á Þingvöllum
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra átti fund með Ségolène Royal, ráðherra umhverfis- og orkumála í Frakklandi, á Þingvöllum í gær, 28. júlí. Ráðherrarnir ræddu einkum loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna í París í desember næstkomandi, þar sem reynt verður að ná nýju hnattrænu samkomulagi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig ræddu ráðherrarnir um náttúruvernd og verndarsvæði og fleiri umhverfismál.
Royal sýndi jarðhitanýtingu mikinn áhuga og lýsti yfir vilja við að koma á samstarfi íslenskra og franskra aðila á því sviði, þar sem víða væru vannýtt tækifæri til nýtingar jarðhita, m.a. í Afríku og eyríkjum í karabíska hafinu. Almennt stefndu Frakkar að stóraukinni notkun á endurnýjanlegri orku.
Umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti stefnu Íslands í loftslagsmálum og landsmarkmið sem Ísland hefur lagt fram fyrir Parísarfundinn. Þar sem rafmagnsframleiðsla og húshitun á Íslandi færi fram með endurnýjanlegri orku þyrfti að skoða aðra þætti til að draga úr losun, m.a. frá bílum og skipum.
Ísland styddi metnaðarfullt hnattrænt samkomulag í París, með víðtækri þátttöku ríkja heims. Ráðherra lýsti yfir ánægju með að Frakkar beittu sér augljóslega af krafti í því að tryggja að samkomulag náist í París.