Greiðsluuppgjör ríkissjóðs janúar-maí 2015
Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir janúar – maí 2015 liggur nú fyrir og gefur upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda. Tekjujöfnuðurinn var jákvæður um 1,7 ma.kr. þar sem innheimtar tekjur jukust um 9,4 ma.kr. milli ára en móti jukust greidd gjöld um 22,7 ma.kr. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 32,4 ma.kr. samanborið við jákvætt handbært fé upp á 11,8 ma.kr. 2014. Þetta skýrist að stærstum hluta með því að leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána sem gjaldfærð var á árinu 2014 kom til greiðslu nú í byrjun árs 2015. Þetta hefur eingöngu áhrif á sjóðshreyfingar en ekki rekstrarstöðu ársins 2015 og hafði sambærileg jákvæð áhrif á handbært fé í lok árs 2014.