Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Stórgjöf Íslenskrar erfðagreiningar: Kaup og uppsetning á jáeindaskanna

Kári Stefánsson
Kári Stefánsson

Íslensk erfðagreining skuldbindur sig til að færa þjóðinni að gjöf allt að 5,5 milljónir Bandaríkjadala til þess að standa straum af kostnaði við að kaupa og setja upp jáeindaskanna. Heilbrigðisráðherra tók við yfirlýsingu þessa efnis úr hendi forstjóra fyrirtækisins í dag. Ráðherra vonast til að nýr jáeindaskanni verði tekinn í notkun á Landspítala innan eins og hálfs árs.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, kynnti ákvörðunina í húsakynnum fyrirtækisins í dag og afhenti Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra yfirlýsinguna. Þörf fyrir jáendaskanna á Landspítala var fyrst skilgreind og metin árið 2008 og hefur frá þeim tíma verið talin nauðsynleg í starfsemi sjúkrahússins. Jáeindaskönnun er sú rannsóknaraðferð í myndgreiningu sem vex hraðast í heiminum. Aðferðin hefur leitt til mikilvægrar framþróunar í greiningu og meðferð ýmissa tegunda krabbameina, en einnig hefur verið sýnt fram á notagildi jáeindaskanna í tengslum við rannsóknir og meðferð fleiri sjúkdóma. Kári lýsti ánægju sinni með að Íslensk erfðagreining gæti lagt sitt af mörkum til samfélagsins með þessu móti og lagði einnig áherslu á mikilvægt hlutverk jáeindaskanna við læknisfræðirannsóknir.

Kristján Þór JúlíussonKristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir allt kapp verða lagt á að koma sem fyrst í not höfðinglegri gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til þjóðarinnar og vonast til að jáeindaskanni verði tilbúinn til notkunar á Landspítala eftir um það bil eitt til eitt og hálft ár. Mikilvægur undirbúningur hafi þegar farið fram af hálfu Landspítalans sem nú komi að góðu gagni. Alþingi þurfi jafnframt að gera nauðsynlegar ráðstafanir á fjárlögum sem tryggi Landspítalanum fjármuni fyrir rekstri jáeindaskannans.

Þetta er sannkallaður gleðidagur, sagði heilbrigðisráðherra þegar hann þakkaði gjöfina: „Þörf fyrir þetta tæki er brýn og vaxandi, enda mikilvæg forsenda nútímalegrar heilbrigðisþjónustu eins og við viljum veita hér á landi.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta