Ábyrg stjórnun olíuvinnslu - sameiginlegur fundur íslenskra og bandarískra stjórnvalda
Utanríkisráðuneyti Íslands og Bandaríkjanna í samvinnu við iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sendiráð Bandaríkjanna og Orkustofnun, efna til tveggja daga málsstofu í Reykjavík um ábyrga stjórnun olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setti málstofuna í morgun.
Á málsstofunni munu bandarískir og íslenskir sérfræðingar ræða málefni sem varða setningu reglna um starfsemi olíu- og gasvinnslu og jafnframt um langtíma stjórnun slíkrar vinnslu. Bandaríkjamenn, sem nýverið tóku við formennsku í Norðurskautsráðinu hafa sýnt olíuvinnslu á norðurslóðum mikinn áhuga. Nýverið settu þeir af stað verkefni sem hefur það að markmiði að auka umræðuna um olíuvinnslu á norðurslóðum, sem unnið er sérstaklega með íslenskum og grænlenskum stjórnvöldum. Auk málstofunnar nú verður haldin málstofa í Nuuk á Grænlandi síðar á árinu.