Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Reglur um endurgreiðslur vegna tannlækninga rýmkaðar

Bætt tannheilsa
Hjá tannlækni

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur samþykkt breytingu á reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar nr. 451/2013 sem heimilar Sjúkratryggingum Íslands að endurgreiða kostnað vegna tiltekinna tannlækninga ungmenna allt að 23 ára að aldri í stað 18 ára áður. Þetta á við þegar um er að ræða meðferð sem af faglegum ástæðum er ekki tímabært að veita fyrr en ákveðnum þroska er náð.

Greiðsluþátttakan sem reglugerðarbreytingin tekur til nær til nauðsynlegra tannlækninga vegna alvarlegra fæðingargalla, slysa eða sjúkdóma, sem upp koma fyrir 18 ára aldur en ekki telst faglega rétt að veita fyrr en eftir þann aldur þar sem fullum vexti beina í höfuðkúpu eða kjálka er ekki náð. Sem dæmi má nefna ef tennur vantar vegna slyss, meðfæddrar tannvöntunar eða af öðrum ástæðum þar sem unnt er að bæta tannmissinn með ísetningu tannplanta. Við þessar aðstæður getur verið æskilegt að fresta aðgerð af fyrrnefndum ástæðum. Sömuleiðis getur verið æskilegt að bíða með útdrátt endajaxla til að fá vissu fyrir því slíkar aðgerðir séu nauðsynlegar.

Sækja þarf um greiðsluþátttöku áður en meðferð er veitt

Umrædd heimild nær að jafnaði ekki lengur en að 23 ára aldri. Sækja skal um greiðsluþátttöku til Sjúkratrygginga Íslands vegna tannlækninga sem hér um ræðir áður en meðferð er veitt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta