Heilbrigðisáðherra afhent skýrsla um byggingu Landspítala við Hringbraut
Nýr Landspítali (NLSH) hefur afhent heilbrigðisráðherra skýrslu sem fyrirtækið KPMG vann og felur í sér rýni á fyrirliggjandi gögnum um hagkvæmni þess að byggja nýjar sjúkrahúsbyggingar við Hringbraut. Niðurstaða skýrslunnar er að ekki sé tilefni til að breyta fyrirliggjandi ákvörðun um að byggja nýjan spítala við Hringbraut.
Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Nýjum Landspítala:
Niðurstaða rýniskýrslu KPMG vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut.
Niðurstaða skýrslunnar er að ekki sé tilefni til að breyta fyrirliggjandi ákvörðun um að byggja nýjan spítala við Hringbraut.
Nýr Landspítali afhendir heilbrigðisráðherra skýrslu KPMG.
Í framhaldi af erindi velferðarráðuneytisins, fyrr í þessum mánuði, fól Nýr Landspítali ohf. KPMG með samningi að yfirfara fyrirliggjandi gögn um hagkvæmni þess að byggja nýjar sjúkrahúsbyggingar við Hringbraut.
Hlutverk KPMG var að yfirfara fyrirliggjandi gögn um hagkvæmni, kostnað, skipulagsmál og staðarval Nýs Landspítala (NLSH) og skrifa samantekt um helstu niðurstöður. Nánar tiltekið var verkefni KPMG eftirfarandi:
- Rýna í helstu fyrirliggjandi gögn og skýrslur sem varða hagkvæmni, kostnað og skipulagsmál vegna staðsetningar NLSH.
- Yfirfara helstu forsendur og útreikninga á hagkvæmni verkefnisins.
- Yfirfara helstu forsendur að baki því að Hringbraut var valin sem framtíðarstaðsetning.
- Yfirfara helstu efnisatriði þeirrar gagnrýni sem fram hafa komið á staðarval.
- Leggja sjálfstætt og óháð mat á það hvort Hringbraut sé besti kostur með tilliti til hagkvæmni og annarra helstu áhrifaþátta miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja.
Ýmsir hafa gagnrýnt staðarvalið í ræðu og riti á undanförnum árum. Gagnrýnin hefur verið af ýmsum toga, en snýr að því að betra kunni að vera að byggja nýjan spítala á öðrum stað. Sú gagnrýni byggir yfirleitt á fimm megin atriðum:
- Skipulagsmál -Staðsetningin við Hringbraut sé ekki góð og byggi á úreltum forsendum. Jafnframt hafa komið fram athugasemdir við form og umfang bygginga.
- Byggingakostnaður, að frádregnu söluandvirði eigna, sé hærri á Hringbraut en á nýjum stað.
- Rekstur sé hagkvæmari ef nýr spítali er byggður frá grunni á nýjum stað.
- Kostnaður við fólksflutninga (starfsmenn, nemendur og aðstandendur sjúklinga) sé hár ef byggt er við Hringbraut
- Umferðarálag stofnbrauta fari yfir þolmörk ef byggt er við Hringbraut
Lengi hefur verið unnið eftir þeirri stefnumörkun og ákvörðun að byggja nýjan spítala við Hringbraut. Það hefur verið talinn besti og hagkvæmasti kostur hvað staðsetningu varðar. Í skýrslu KPMG er varpað ljósi á það hvort ástæða sé til þess að breyta út af þeirri ákvörðun. Til þess hljóta að þurfa að vera afgerandi rök sem gera aðra staðsetningu mun betri eða hagkvæmari. Þetta er skoðað út frá helstu gagnrýnisatriðum sem fram hafa komið.
Niðurstöður
- Skipulagsmál: Skipulag og form bygginga hefur verið þannig hannað að vel fari um nýjan sameinaðan spítala við Hringbraut. Breytingar í skipulagsferlinu tóku mið að helstu athugasemdum sem gerðar voru við form og umfang bygginga. Staðsetningin fellur vel að heildarskipulagi og framtíðarmynd Reykjavíkurborgar að mati borgaryfirvalda.
- Byggingarkostnaður: Núvirtur byggingarkostnaður reiknast 21.ma.kr. hærri á nýjum stað en við Hringbraut. Fasteignir LSH við Hringbraut yrðu því að seljast á því verði til að kostirnir tveir teljist jafn kostnaðarsamir.
- Rekstrarkostnaður: Núvirði aukins rekstrarhagræðis ef byggt er á nýjum stað frá grunni reiknast tæplega 3 ma. kr. að teknu tilliti til kostnaðar vegna truflunar á rekstri vegna framkvæmda á Hringbrautarlóð
- Kostnaður við fólksflutninga: Hringbraut og Sævarhöfði virðast bestu kostirnir m.t.t. dreifingar notenda og starfsfólks og því kostnað við fólksflutninga. Aðrir kostir koma verr út í þeim samanburði.
- Umferðarálag: Hringbrautarlóðin er við stórar samgönguæðar og mislæg gatnamót og ekki er talin þörf á meiriháttar umferðamannvirkjum við sameiningu starfsemi LSH við Hringbraut. Bygging spítala við Hringbraut og flutningur starfsemi þangað úr Fossvogi mun valda hlutfallslega lítilli aukningu á umferðarálagi á háannatíma.
Að mati KPMG gefa framangreindir þættir ekki tilefni til að breyta fyrirliggjandi ákvörðun um að byggja nýjan spítala við Hringbraut.
Heilbrigðisráðherra hefur með skilabréfi NLSH ohf. dags. 28. ágúst 2015, fengið skýrsluna afhenta og um leið hefur hún verið gerð opinber.