Ný skýrsla OECD: Góðar horfur í íslenskum efnahagsmálum
Góðar horfur eru í íslenskum efnahagsmálum og árangur hefur náðst á mörgum sviðum, en áskoranir eru enn til staðar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um Ísland, sem birt var í dag, en slíkar skýrslur eru gefnar út á tveggja ára fresti. Angel Gurría, framkvæmdastjóri stofnunarinnar sem staddur er í heimsókn hér á landi, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á blaðamannafundi, ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
„Efnahagsbatinn á Íslandi er eftirtektarverður og viðsnúningurinn meiri og hraðari en í öðrum Evrópuríkjum eftir fjármálaáfallið. Við teljum horfur almennt góðar, en hins vegar er ljóst að ekkert má gefa eftir. Ísland stendur enn frammi fyrir þeim áskorunum að tryggja sjálfbæran hagvöxt, sér í lagi að styrkja undirstöður efnahagslegs stöðugleika, festa í sessi árangurinn í ríkisfjármálum og efla framleiðnivöxt,“ segir Angel Gurría framkvæmdastjóri OECD um skýrsluna.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
Góðar horfur í efnahagsmálum. Árangur hefur náðst en áskoranir eru enn til staðar.
- Verðbólga hefur minnkað, erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað, opinberar skuldir hafa lækkað, atvinnuleysi hefur minnkað og færri fjölskyldur búa við fjárhagserfiðleika.
- Áætlun um afnám fjármagnshafta er fagnað en hvatt er til varfærni við losunina sem raskar ekki efnahagslegum stöðugleika.
- Miklar launahækkanir sem ákveðnar voru í nýlegum kjarasamningum eru langt umfram framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið og munu krefjast aðhalds í peningamálum sem dregur úr hagvexti.
- Jöfnuður hefur náðst í ríkisfjármálum og opinberar skuldir hafa lækkað. Nýgerðir kjarasamningar geta haft neikvæð áhrif á sjálfbærni í ríkisfjármálum til lengri tíma. Auka þarf aðhald til að tryggja áframhaldandi árangur.
- Áhætta felst í lífeyrisskuldbindingum hins opinbera og vanda Íbúðalánasjóðs. Mikilvægt er að draga úr þessari áhættu og skapa svigrúm, m.a. með lækkun skulda ríkissjóðs.
Ýmsir þættir halda aftur af framleiðni.
- Þrátt fyrir efnahagsbata eru tekjur á mann á Íslandi lægri en í nágrannalöndunum, sem endurspeglar framleiðnivanda.
- Viðskiptaumhverfið á Íslandi er að mörgu leyti gott en draga þarf úr markaðshindrunum sem hamla nýsköpun. Vegna smæðar hagkerfisins getur verið erfitt að tryggja samkeppni.
- Hæfni skortir á sumum sviðum atvinnulífsins m.a. vegna mikils brottfalls úr framhaldsskólum.
Helstu tilmæli OECD:
Efnahagsmál.
- Mikilvægt er að vinna að losun fjármagnshafta og ný áætlun stjórnvalda er mikilvægt skref í þá átt. Starfsemi fjármálastöðugleikaráðs getur stutt við góða útkomu.
- Hækka þarf stýrivexti til að tryggja að verðbólga fari ekki úr böndunum, eins og peningastefnunefnd hefur þegar boðað og hafið vaxtahækkunarferli. Stefna ætti að lítilli og stöðugri verðbólgu til millilangs tíma og lágmarka inngrip á gjaldeyrismörkuðum nema til að hindra skyndilegar sveiflur í gengi.
- Tryggja þarf sjálfstæði Seðlabankans og trúverðugleika án pólitískra inngripa. Mælt er með að peningastefnunefndin starfi áfram.
- Styrkja ætti umhverfi fjármálastöðugleika og beita þjóðhagsvarúðartækjum vegna stórra fjármagnshreyfinga í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
- Til að vernda hagkerfið fyrir óumflýjanlegum áföllum og efla traust þarf að skapa svigrúm. Í því augnamiði er mikilvægt að lækka opinberar skuldir, tryggja nægan gjaldeyrisvaraforða, tryggja hátt eiginfjárhlutfall banka og góða lausafjárstöðu þeirra.
- Umbóta er þörf á fyrirkomulagi kjaraviðræðna og ríkissáttasemjari þarf umboð og tæki til að þrýsta á raunhæfari kjarasamninga.
Opinber fjármál.
- Samþykkja ætti lög um opinber fjármál, þar sem kveðið er á um fjármálareglur og stofnun sjálfstæðs fjármálaráðs sem hafi það hlutverk að meta árangur og sjálfbærni opinberra fjármála.
- Nota ætti einskiptistekjur til að greiða niður skuldir, m.a. tekjur sem gætu fallið í skaut opinberra aðila við framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta.
- Draga ætti úr áhættu vegna ríkisskuldbindinga, m.a. með því að leysa upp Íbúðalánasjóð.
- Skatttekjur færist í auknum mæli frá tekjuskatti yfir í virðisaukaskattskerfið, þó með tilliti til jafnaðaráhrifa.
Framleiðni.
- Stuðla markvisst að aukinni framleiðni.
- Fjarlægja hindranir við innkomu á markaði, m.a. lagalegar takmarkanir í ákveðnum geirum.
- Efla nýsköpun og efla tengsl atvinnulífs og háskóla. Auðvelda aðgang að styrkjum, sér í lagi hjá opinberum sjóðum sem geta hjálpað fyrirtækjum að vaxa.
- Herða samkeppnisstefnu til að koma í veg fyrir að yfirburðastaða og hringamyndun hamli samkeppni.