Hoppa yfir valmynd
1. september 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Stefnt að því að stytta bið eftir skurðaðgerðum í kjölfar verkfalla

Skurðaðgerð
Skurðaðgerð

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í dag áætlun um átak til að stytta biðlista eftir tilteknum skurðaðgerðum. Ríkisstjórnin hefur falið heilbrigðisráðherra í samvinnu við fjármálaráðherra að gera tillögur um fjármögnun slíks verkefnis. Áætlaður kostnaður er um 1.260 milljónir króna.

Biðlistar eftir aðgerðum lengdust umtalsvert meðan á verkföllum heilbrigðisstarfsfólks stóð síðastliðinn vetur. Embætti landlæknis upplýsti heilbrigðisráðherra nýverið um biðtíma og fjölgun á biðlistum eftir tilteknum aðgerðum í kjölfar verkfallanna og gerði tillögu um sértækar aðgerðir til að takast á við brýnasta vandann. Erindi heilbrigðisráðherra sem hann kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag byggist á tillögum Embættis landlæknis þar sem horft er bæði til biðtíma og sérstakrar áhættu sem leiðir af bið eftir aðgerð. Tillögurnar miða að því að stytta bið eftir augasteinsaðgerðum, gerviliðaaðgerðum á hné, gerviliðaaðgerðum á mjöðm og loks hjarta- og/eða kransæðamyndatöku.

Ef litið er til fjölda þeirra sem beðið höfðu lengur en þrjá mánuði samkvæmt biðlistum í júní síðastliðnum voru það 2.915 sem biðu eftir skurðaðgerð á augasteini, 598 biðu eftir gerviliðaaðgerð á hné, 338 eftir gerviliðaaðgerð á mjöðm og 102 biðu eftir hjarta- og/eða kransæðamyndatöku og eru þar kransæðavíkkanir meðtaldar. Þetta er fjölgun miðað við sama tíma árið 2014 og biðtíminn getur verið allt að þrjú ár. Löng bið dregur úr lífsgæðum fólks og þegar um er að ræða hjartaaðgerðir getur löng bið verið lífshættuleg. Sú staða er óásættanleg og er það mat  heilbrigðisráðherra að nauðsynlegt sé að stytta biðlista og biðtíma og setja markið á að sem flestir séu komnir í aðgerð innan þriggja mánaða frá því að beiðni um aðgerð er skrifuð.

Kostnaður við styttingu biðlista með fjölgun framangreindra aðgerða er áætlaður 1.165 milljónir króna en við þessa tölu bætist kostnaður vegna endurhæfingar og sjúkraþjálfunar auk heimahjúkrunar að fjárhæð 95 milljónir króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta